Kauphöllin, ásamt UN Women á Íslandi, FKA og SA, tók í dag í sjötta sinn þátt í sameiginlegum viðburði á heimsvísu á meðal kauphalla um að hringja bjöllu fyrir jafnrétti kynjanna í tilefni af alþjóðadegi kvenna í dag, 8. mars.

Þema UN Women fyrir daginn í ár er „DigitALL: Innovation and technology for gender equality“ sem vísar til mikilvægis nýsköpunar, framþróunar í tækni og menntunar til að ná fram kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna um allan heim.

Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, flutti erindi og var heiðursgestur ásamt kvenforstjórum í Kauphöllinni, þeim Ástu Sigríði Fjeldsted, forstjóra Festi, Birnu Einarsdóttur, forstjóra Íslandsbanka og Margréti Tryggvadóttur, forstjóra og skemmtanastjóra Nova. Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS var því miður fjarverandi vegna óviðráðanlegra aðstæðna.

„Þema alþjóðlegs baráttudags kvenna í ár hjá Sameinuðu þjóðunum rímar vel við áherslur okkar hjá Nasdaq á Íslandi og Nasdaq á heimsvísu,” segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland.

„Tækni, gagnsæi, fræðsla og samstarf eru þungamiðjan í því að jafna aðgengi að fjármagni sem og fjárfestingarkostum og það er mikilvægt að það sé ekki bundið við einhvern lokaðan klúbb. Með því er stuðlað að jafnrétti og auknum möguleikum allra til efnahagslegra framfara.”

Kristín Ögmundsdóttir, Magnús Harðarson, Ásta Sigríður Fjeldsted, Birna Einarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Halldór Benjamín Þorbergsson, Tanya Zharov og Andrea Róbertsdóttir.