Hlutabréfaverð bankanna þriggja í Kauphöllinni hafa hækkað í fyrstu viðskiptum eftir að bæði Arion banki og Íslandsbanki óskuðu eftir samrunaviðræðum við Kviku banka.

Gengi hlutabréfa Kviku hefur hækkað um 10% og stendur í 17,5 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð samanborið við 15,9 krónur við lokun Kauphallarinnar í gær.

Arion banki tilkynnti eftir lokun Kauphallarinnar í gær að hann hefði óskað eftir því að hefja samrunaviðræður við Kviku banka. Stjórn Íslandsbanka óskaði í morgun einnig eftir að hefja samrunaviðræður við Kviku og sagðist reiðubúin að bjóða 10% ofan á markaðsvirði Kviku við útreikning á skiptihlutföllum.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um 1,7% og stendur í 120,5 krónum þegar fréttin er skrifuð. Gengi Íslandsbanka er núna 13% yfir útboðsgengi í útboði ríkisins sem fór fram fyrr í mánuðinum.

Gengi hlutabréfa Arion banka hefur hækkað um 2,6% í yfir 400 milljóna króna veltu og stendur nú í 177,5 krónum á hlut.

Hlutabréf Skaga, móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og Íslenskra verðbréfa, hafa einnig hækkað um 2,6% í morgun.