Hagnaður Kviku banka fyrir skatta nam 5,6 milljörðum króna í fyrra, þar 1,6 af milljörðum á síðasta ársfjórðungi. Arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta nam 13,1% á árinu og 15,3% á fjórðungnum, en afkomuspá bankans fyrir þetta ár var uppfærð í 9,4 milljarða samhliða birtingu uppgjörsins, eða 21,6% arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta.
Hreinar vaxtatekjur námu 7,7 milljörðum og jukust um 65% milli ára, hreinar þóknanatekjur námu 6,4 milljörðum og drógust saman um 6% og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi námu 4,2 milljörðum og drógust lítillega saman milli ára.
Hreinar fjármunatekjur námu litlum 272 þúsund krónum samanborið við 5,7 milljarða árið áður, og aðrar hreinar rekstrartekjur námu tæpum 900 milljónum.
Í heild námu hreinar rekstrartekjur því 19,2 milljörðum og drógust saman um tæp 13% milli ára, en á sama tíma jókst rekstrarkostnaður um 12,4% og nam ríflega 13 milljörðum. Matsbreyting var neikvæð um ríflega hálfan milljarð en höfðu verið jákvæðar um tæpar 140 milljónir árið áður.
Heildareignir bankans námu 303 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið fé 81 milljarði. Eiginfjárhlutfall án tryggingastarfsemi var 23,5% og lausafjárþekjuhlutfall 320%. Þá var bankinn með 462 milljarða króna í stýringu.
Stjórn Kviku leggur til að greiddir verði rúmir 1,9 milljarðar króna í arð vegna rekstrarársins 2022.