Ef samruni Íslandsbanka og Kviku banka gengur í gegn verður til stærsta fjármálafyrirtæki landsins. Það yrði jafnframt tíundi samruni eða yfirtaka Kviku frá því fyrirtækið varð til árið 2015 með samruna MP Banka og Straums.
Kvika hefur á undanförnum árum vaxið hratt með samruna við eða kaupum á nokkurn fjölda fjármálafyrirtækja. Síðasti stóri samruni Kviku var við TM og Lykil árið 2021. Til marks um vöxt Kviku var fyrirtækið metið á 14,5 milljarða þegar það var skráð á markað árið 2018 en markaðsvirðið nú er um 96 milljarðar.
Stjórnendur bankans hafa bent á umtalsverða stærðarhagkvæmni í bankarekstri þegar kemur að rekstrarkostnaði, fjármögnunarkjörum og við að mæta kröfum eftirlitsaðila.
Hins má þó vænta að Samkeppniseftirlitið setji ýmsa fyrirvara og skilyrði eigi samruninn að fá samþykki þess, til að mynda um aðskilnað eða sölu dótturfélaga eða rekstrareininga. Þar munu togast á kostir stærðarhagkvæmninnar og samkeppnissjónarmið.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að ef samruna Íslandsbanka og Kviku verði yrði til fjárhagslega sterkari banki sem geti aukið samkeppni á markaðnum, neytendum til góða.
Vænta má viðbragða frá stjórn Íslandsbanka við beiðni Kviku um samrunaviðræður eftir lokun markaða í dag þegar Íslandsbanki birtir uppgjör vegna ársins 2022.
Nánar er fjallað um samrunaáform Kviku og Íslandsbanka í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.