Samstæða fyrirtækjanna Reykjavik Excursions/Kynnisferða, Icelandic Mountain Guides, Iceland Rovers, Dive.is auk starfssemi Flybus hefur fengið nafnið Icelandia. 

„Undanfari sameiningarinnar undir nafninu Icelandia var margra mánaða vinna þar sem kortlögð hafa verið sameiginleg markmið fyrirtækjanna í þeim tilgangi að auka samvirkni þeirra í einu sameinuðu félagi,“ segir í fréttatilkynningu. 

Icelandia er einnig umboðsaðili Enterprise Rent-a-car bílaleigunnar, er undirverktaki Strætó í akstri á höfuðborgarsvæðinu og rekur dráttarbílafyrirtæki undir nafninu Garðaklettur.  Auk þess er samstæðan hluthafi í nokkrum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum eins og Fontana á Laugarvatni, Íslenskum Heilsulindum og Raufarhólshelli.

Fyrirtæki Icelandia eiga sér langa sögu í íslenskri ferðaþjónustu en Kynnisferðir (e. Reykjavik Excursions) er eitt elsta ferðaþjónustu fyrirtæki landsins, stofnað árið 1968. 

„Nafnið Icelandia staðsetur fyrirtækið beint sem miðpunkt ferðalausna á Íslandi gagnvart erlendum ferðamönnum en vísar jafnframt í tilgátur um að undir Íslandi væri falin heimsálfa; Icelandia.“ 

Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Icelandia:

„Það hefur verið sviptingasamt í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár, eldsumbrot, skakkaföll í framboði á flugi til landsins og heimsfaraldur COVID-19 hafa sýnt svo ekki verður um villst að sveigjanleiki og samvirkni starfsfólks undir einum hatti er áreiðanlegasta leiðin til að takast á við breytingar. Við ætlum okkur stærri hluti á markaðnum og hyggjumst leiða okkar fólk á nýjar slóðir núna þegar íslensk ferðaþjónusta stendur á enn einum tímamótunum, með vaxandi fjölda dýrmætra ferðamanna sem elska landið okkar eins og við sjálf. Nýtt og sameinað fyrirtæki undir nafninu Icelandia er til marks um vilja okkar til að standast ekki bara væntingar, heldur verða þekkt sem helsta gáttin að Íslandi.“