Catherine Mann, meðlimur í peningastefnunefnd Englandsbanka, varar við því að lækkandi gas- og rafmagnsreikningar heimila og fyrirtækja gæti leitt til aukinnar verðbólgu.

Þetta sagði hún á ráðstefnu Evrópska fjárfestingarbankans í Lúxemborg, að því er kemur fram í grein hjá Telegraph.

Mann sagði að lækkandi orkuverð gæti leitt til þess að heimilum líði betur.

„Aftur á móti, sá peningur sem þau [heimilin] eyða ekki í orku, munu þau eyða í eitthvað annað,“ sagði Mann á ráðstefnunni.

Mann er sá meðlimur nefndarinnar sem hefur viljað ganga hvað lengst í vaxtahækkunum, og hefur þrýst á um hærri vexti á síðustu fundum.

Verðbólga í Bretlandi hefur minnkað þrjá mánuði í röð, farið úr 11,1% niður í 10,1%. Þá hefur Englandsbanki lagt sitt að mörkum í baráttunni við verðbólguna og hækkað vexti tíu fundi í röð, upp í 4%.