Erdogan Tyrklandsforseti kallar eftir áframhaldandi stýrivaxtalækkunum og að vextir verði orðnir lægri en 10% fyrir árslok. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg, en Erdogan var tekinn tali hjá CNNTurk í gær.
Seðlabanki Tyrklands lækkaði stýrivexti um eitt prósentustig í síðustu viku, úr 13% í 12%, en þetta var annar mánuðurinn í röð sem vextir voru lækkaðir. Á sama tíma mælist 80% verðbólga í landinu.
„Héðan í frá munu vextirnir halda áfram að lækka. Það mun draga úr verðbólgu,“ sagði Erdogan í viðtalinu.
Erdogan hafnar þeirri almennu hagfræðikenningu að hærri vextir dragi úr verðbólgu og hefur haldið þeirri kenningu á lofti að lægri vextir leiði til minni verðbólgu. Þá hefur hann rekið þrjá seðlabankastjóra í röð á síðustu fjórum árum vegna ágreinings um vaxtastefnuna.
Gjaldmiðill Tyrklands, líran, hefur tapað meira en helmingi af verðgildi sínu gagnvart Bandaríkjadollara á síðustu tólf mánuðum. Veiking lírunnar á stóran þátt í vaxandi verðbólgu í landinu sem reiðir sig að miklu leyti á innflutning, sérstaklega þegar kemur að orku.