Samgönguráðherra Bretlands, Heidi Alexander, hefur kynnt breytingar á reglum um lestarstjóra í landinu og segir að lágmarksaldur þeirra sem mega aka lestum í Bretlandi verði lækkaður úr 20 ára niður í 18 ára.

Á vef BBC segir að ákvörðunin hafi verið tekin til að takast á við skort lestarstjóra í landinu en sífellt fleiri lestarstjórar eru að fara á eftirlaun.

Meðalaldur lestarstjóra í Bretlandi er 48 ára og er búist við því að 30% þeirra fari á eftirlaun fyrir 2029. Færri en 9% lestarstjóra eru konur og færri en 12% eru úr minnihlutahópum.

Skorturinn hefur valdið verulegum röskunum í Bretlandi en samkvæmt breska samgönguráðuneytinu eru um 87% aflýstra lestarferða aflýstar kvöldið áður vegna skorts á lestarstjórum.

Verkalýðsfélagið Aslef segir að þetta muni veita mörgum ungum nemendum tækifæri en ítrekar að farið verði eftir öllum reglum og stöðlum til að tryggja að ungmennin gerist lestarstjórar með öruggum hætti.