Bandaríski fjár­festinga­bankinn Gold­man Sachs hefur ákveðið að lækka lág­marks­fjár­festingu um 90% í nýjum sjóði sem ætlar að fjár­festa í sér­hæfðum einka­markaðs­sjóðum bankans.

Nýi sjóðurinn er hluti af 1869-áætluninni, sem heitir eftir stofnári bankans, en um er að ræða sam­bæri­legan sjóð og var stofnaður árið 2022, sam­kvæmt heimildum blaða­manna Financial Times.

Nú hefur lág­marks­fjár­festingin verið lækkuð úr 250.000 dollurum niður í 25.000 dollara til að laða að fleiri fjár­festa. Fyrri sjóðurinn vakti tölu­verða at­hygli meðal fyrr­verandi sam­starfsaðila bankans, en rúm­lega helmingur fyrr­verandi stjórn­enda Gold­man Sachs tók þátt og safnaðist um 1 milljarður dollara í sjóðinn.

Aukin áhersla á einka­markaði

Gold­man Sachs eykur nú um­fang sitt á einka­markaði, sem hefur vaxið gríðar­lega á undan­förnum árum og orðið mikilvægur hluti af fjár­festingar­heimi Wall Street.

Nýi sjóðurinn veitir fyrrum stjórn­endum bankans tækifæri til að fjár­festa með lægri gjöldum en al­mennt tíðkast. Stjórn­endur greiða 0,63% í ár­legt um­sýslu­gjald og 6,3% af árangurs­tengdum gjöldum, sem er helmingi lægra en í sam­bæri­legum sjóðum bankans.

David Solomon, for­stjóri Gold­man Sachs, hefur lagt mikla áherslu á upp­byggingu eignastýringar­deildar bankans, sem gefur reglu­bundnar tekjur í formi um­sýslu­gjalda – ólíkt sveiflu­kenndari tekjum frá fjár­festingar­banka­starf­semi og við­skipta­deildum bankans.

Gold­man Sachs stýrir nú eignum upp á 3,1 trilljón dollara, þar af um 336 milljörðum í sjóðum sem fjár­festa í óhefðbundnum eigna­flokkum, svo sem í einka­fjár­festingum, fast­eignum og annars stigs fjár­festingar­sjóðum.

Viðhalda tengslum við fyrrum starfs­menn

1869-áætlunin er liður í við­leitni Goldmans til að viðhalda tengslum við fyrr­verandi sam­starfsaðila bankans, sem oft taka við stjórnunar­stöðum hjá helstu við­skipta­vinum bankans – til dæmis hjá vogunar­sjóðum, einka­fjár­festingafélögum eða í stjórnsýslu.

Á meðal þekktra fyrrum sam­starfsaðila má nefna Gary Cohn, fyrr­verandi efna­hags­ráðgjafa Donalds Trump, Malcolm Turn­bull, fyrr­verandi for­sætis­ráðherra Ástralíu, og Jim Esposito, for­seta hjá Cita­del Secu­rities. Þrátt fyrir að Gold­man hafi hætt form­legu sam­starfs­fyrir­komu­lagi eftir að bankinn fór á markað árið 1999 er félagið enn valið í hóp sam­starfsaðila á tveggja ára fresti – og titillinn nýtur mikillar virðingar í banka­geiranum.

Sam­bæri­leg tengsla­net eru einnig til hjá ráðgjafar­fyrir­tækinu McKins­ey, sem býður fyrr­verandi starfsmönnum að­gang að eignastýringar­fyrir­tæki sínu, MIO Partners. MIO hefur byggst hratt upp og stýrir nú 23 milljörðum dollara í eignum.

Fyrir­tækið hefur hins vegar sætt gagn­rýni vegna mögu­legra hags­munaá­rekstra við ráðgjafa­starf­semi McKins­ey og er nú til skoðunar hvort það verði sjálf­stætt félag.