Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur lækkað stjórnvaldssekt Neytendastofu á Hagkaup vegna villandi auglýsinga í tengslum við „Tax-free“ afslætti úr 850 þúsund krónum í 400 þúsund krónur.

Neytendastofa sektaði Hagkaup í nóvember 2023 vegna auglýsinga um „Tax-free“ afslætti félagsins þar sem stofnunin taldi annars vegar hafa vantað alveg upplýsingar um prósentuhlutfall lækkunarinnar í auglýsingarnar en hins vegar hafi hlutfallið verið tilgreint í smáu og ólæsilegu letri.

„Áfrýjunarnefnd felldi hins vegar úr gildi hluta ákvörðunarinnar vegna formgalla á málsmeðferð sem leiddi til þess að Hagkaup gat ekki tjáð sig um efni málsins. Sá hluti ákvörðunarinnar sem sneri að auglýsingum á samfélagsmiðlum þar sem hlutfallið kom ekki fram var því felldur úr gildi,“ segir í frétt á vef Neytendastofu.

Nefndin staðfesti hins vegar þann hluta ákvörðunarinnar sem sneri að auglýsingum þar sem prósentuafsláttur var tilgreindur með óskýrum og ólæsilegum hætti.

Í ljósi þess að hluti ákvörðunarinnar var felldur úr gildi taldi áfrýjunarnefndin tilefni til að lækka stjórnvaldssektina.