Ferðamálastofa hefur endurskoðað spá um fjölda ferðamanna á árunum 2024- 2026 sem gefin var út í ársbyrjun.
Ferðamenn á fyrstu mánuðum ársins voru mun færri en spá gerði ráð fyrir samhliða því að dregið hefur úr væntingum um komu ferðamanna til Íslands, sérstaklega vegna þess að búist er við að hagvöxtur í ríkjum OECD verði minni en áður var spáð.
„Vísbendingar þar að lútandi eru þegar farnar að sjást í bókunum á gistingu, flugi og leitaráhuga eftir ferðaþjónustu á netinu,“ segir í tilkynningu Ferðamálastofu.
Samkvæmt upphaflegri spá Ferðamálastofu í ársbyrjun voru væntingar um að ferðamenn yrðu um 2,62 milljónir árið 2025 sem yrði 6,9% aukning milli ára.
Uppfærð spá gerir ráð fyrir um 2,27 milljón ferðamönnum sem er um 4,4% aukning.
Upphafleg spá gerði einnig ráð fyrir um 2,74 milljón ferðamönnum árið 2026 sem yrði 4,6% aukning en núverandi spá gerir ráð fyrir 2,34 milljón ferðamönnum sem er 3,1% aukning.
Eldsumbrot á Reykjanesi auka óvissu um vilja ferðamanna til að koma til landsins að mati Ferðamálastofu en forsendur spárinnar um hagvöxt í ríkjum OECD leiðir þó til þess að ferðamönnum fjölgi 2025 og 2026 frá því sem búist er við á árinu 2024.
Gangi uppfærða spáin eftir munu erlendir gestir sem fara um Keflavíkurflugvöll vera álíka margir árið 2026 og árið 2018 þegar þeir voru flestir.