Seðlabanki Evrópu tilkynnti í hádeginu í dag að hann hefði ákveðið að lækka stýrivexti sína um 0,25 prósentur, úr 2,75% í 2,5%. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar markaðsaðila.

Um er að ræða sjöttu vaxtalækkun evrópska seðlabankans við síðustu sjö vaxtaákvarðanir frá því í júní síðastliðnu. Í umfjöllun Reuters segir að þetta sé sennilega síðasta auðvelda vaxtaákvörðun bankans í bili.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans segir að verkefnið við að ná verðbólgu niður á evrusvæðinu gangi vel og sé nokkurn veginn í takt við spár bankans. Starfsfólk bankans gerir nú ráð fyrir að verðbólga á evrusvæðinu verði að meðaltali 2,3% í ár, 1,9% á næsta ári og 2,0% árið 2027.

Nefndin segir að taumhald peningastefnunnar sé orðið talsvert minna þétt og bætir við að áhrif síðustu vaxtalækkana bankans séu enn að síast í gegnum fjármagnskerfið.

Fram kemur að bankinn hafi aftur fært niður hagvaxtarhorfur á evrusvæðinu. Nú er gert ráð fyrir 0,9% hagvexti árið 2025, 1,2% árið 2026 og 1,3% árið 2027. Niðurfærslan er sögð endurspegla væntingar um minni útflutning og áframhaldandi veikleika þegar kemur að fjárfestingum.