Úrvalsvísitalan hefur fallið um 1,3% í yfir 2 milljarða króna veltu það sem af er degi. Hlutabréf fjórtán félaga aðalmarkaðarins hafa lækkað og þriggja hækkað. Úrvalsvísitalan féll einnig um 1,07% í gær.

Sennilegt er að fjárfestar séu enn að meta verðbólguvæntingar og spá í spilin um viðbrögð Seðlabankans í kjölfar þess að verðbólgan fór yfir 10%. Mikil velta hefur verið á skuldabréfamarkaðnum, líkt og í gær, en ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað í viðskiptum dagsins.

Hlutabréfaverð fjögurra félaga aðalmarkaðarins hefur lækkað um meira en 2%, þar á meðal og Kviku banka og Eimskips. Þrjú félög aðalmarkaðarins hafa hækkað í viðskiptum dagsins, en þar af hefur Alvotech hækkað mest eða um 2,4% í hálfs milljarðs veltu. Gengi Alvotech stendur nú í 2.100 krónum.

Á First North-markaðnum hafa hlutabréf Amaroq Minerals fallið um 1% og Play um 3,8%. Gengi Play stendur nú í 10,2 krónum á hlut og hefur nú fallið um fimmtung í ár.