Evrópskir hlutabréfamarkaðir opnuðu rauðir í morgun. Stoxx Europe 600 vísitalan hefur lækkað um 1,2% það sem af er degi, breska FTSE 100 um 1,3% og þýska DAX vísitalan um 0,9%. Þá hefur íslenska Úrvalsvísitalan fallið um 1,4% það sem af er degi.
Lækkanir á hlutabréfamörkuðum fylgja í kjölfarið af miklum lækkunum á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. S&P 500 vísitalan lækkaði um tæplega 3% í gær. Þá voru lækkanir í Asíu í morgun.
Lækkanir á mörkuðum eru einkum raktar til skilaboða Seðlabanka Bandaríkja í kjölfar vaxtaákvörðunar bankans í gær. Hann lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur, niður í 4,25-4,5% en gaf til kynna að vaxtalækkunarferli bankans yrði ekki jafnt skarpt og markaðsaðilar höfðu gert sér vonir um.
Verðbólguspá sem bandaríski seðlabankinn birti í gær gefur til kynna að hann geri ráð fyrir að erfiðara verði að eiga við verðbólguna á næsta ári en áður var spáð. Flestar sviðsmyndir bankans gera ráð fyrir tveimur stýrivaxtalækkunum á næsta ári en fyrri spá bankans í september gerði ráð fyrir fjórum vaxtalækkunum.
Hlutabréf meirihluta félaga aðalmarkaðar Kauphallarinnar hafa lækkað það sem af er degi. Hlutabréfaverð sjö félaga hafa lækkað meira en tvö prósent. Eimskip og Alvotech hafa lækkað mest af félögum aðalmarkaðarins eða um meira en 3%.