Evrópsk hlutabréf og skuldabréf lækkuðu í verði í morgun eftir að Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu, lýsti því í viðtali á Davos að embættismenn bankans horfi til næsta sumars til að hefja vaxtalækkunarferli. Væntingar höfðu verið uppi um að evrópski seðlabankinn myndi ráðast í vaxtalækkanir fyrr, jafnvel strax í mars.
Hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 hefur lækkað um 1,2% frá opnun markaða í morgun. Franska hlutabréfavísitalan CAC 40 og þýska DAX hafa fallið um 1% og breska FTSE 100 hefur lækkað um meira en 1,5%.
Lagarde sagði í viðtali við Bloomberg að væntingar um vaxtalækkanir hjá bankanum í vor væru ekki að hjálpa til í baráttunni gegn verðbólgu.
Í umfjöllun Financial Times segir að fyrir ummæli Lagarde hafi verðlagning á skuldabréfamarkaði endurspeglað að fullu væntingar um vaxtalækkun fyrir lok apríl og 20% líkur á vaxtalækkun í mars.
Eftir opnun markaða í morgun endurspeglar verðlagning á mörkuðum að markaðsaðilar telji 85% líkur vaxtalækkun í apríl og 20% líkur á lækkun í mars.
Aðspurð sagði Lagarde að evrópski seðlabankinn verði með nægar upplýsingar um launaþrýsting síðla vors. Nauðsynlegt væri fyrir bankann að vera með umrædd gögn fyrir hendi áður en nokkur ákvörðun um stýrivaxtalækkun yrði tekin.
Íslenska úrvalsvísitalan hefur einnig lækkað um meira en 1% í morgun. Sextán af 26 félögum aðalmarkaðarins hafa lækkað í fyrstu viðskiptum.