Hlutabréf í Bandaríkjunum hafa lækkað nokkuð í dag eftir að gögn sem birt voru um vinnumarkaðinn gáfu til kynna mikla spennu á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.
Kauphöllin í Bandaríkjunum opnaði kl 14:30 á íslenskum tíma og hafa helstu hlutabréfavísitölur lækkað frá opnun markaða. Dow Jones vísitalan hefur lækkað um 1,3% S&P 500 um 1,1% og Nasdaq Composite um 1,1% frá opnun markaða, þegar fréttin er skrifuð.
Erlendir miðlar rekja lækkuna til spennu á bandarískum vinnumarkaði, en talsvert færri sóttu um atvinnuleysisbætur síðustu vikur en greinendur höfðu gert ráð fyrir. Sú spenna gæti leitt til meiri og þrálátari vaxtahækkana hjá Seðlabankanum.
Vextir í hæstu hæðum
Næsti vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans er haldinn dagana 31. janúar – 1. febrúar. Stýrivextir standa nú í 4,25-4,5%, en bankinn hækkaði vexti um 50 punkta á síðasta fundi í desember og var það sjöunda vaxtahækkunin á árinu. Vextir hafa ekki verið hærri í Bandaríkjunum síðan árið 2007 og hafa talsmenn bankans talað fyrir frekari vaxtahækkunum á þessu ári.
Vaxtahækkanirnar virðast vera að skila árangri ef marka má verðbólgutölur. Verðbólga í Bandaríkjunum hefur hjaðnað fimm mánuði í röð og mældist 7,1% í nóvember. Hún fór hæst upp í 9,1% í júní.