Úrvalsvísitalan hefur lækkað um meira en eitt prósent í 1,5 milljarða veltu það sem af er degi. Alvotech leiðir lækkanir en gengi lyfjalíftæknifyrirtækisins hefur lækkað um 6,6% í 25 milljóna viðskiptum. Gengi Alvotech stendur í 1.195 krónum á hlut.
Hagar fylgja þar á eftir í 2,7% lækkun í 50 milljóna veltu en hlutabréf smásölufyrirtækisins hafði hækkað um 4,9% síðustu tvo daga.
Meðal annarra félaga sem hafa lækkað um meira en eitt prósent eru Marel, Arion banki, Kvika banki og Icelandair.
Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan eru einu félögin sem hafa hækkað það sem af er degi, en þó í lítilli veltu.