Gengi Play lækkaði um 4,95% í dag og er hlutabréfaverð flugfélagsins nú 9.60 krónur á hvern hlut. Hlutabréf Play hafa ekki verið lægri frá skráningu.

Hlutabréf Alvotech voru þau einu sem hækkuðu við lokun Kauphallarinnar í dag. Gengi félagsins hækkaði um 2,37% og er hlutabréfaverð Alvotech nú 1.080 krónur á hvern hlut.

Alvotech tilkynnti í morgun undirritun nýs samstarfssamnings við breska lyfjafyrirtækið Advanz Pharma. Samstarfið felur í sér framleiðslu og sölu á fimm líftæknilyfjahliðstæðum í Evrópu. Alvotech mun sjá um þróun og framleiðslu, en Advanz Pharma sér um skráningu, markaðssetningu og sölu í álfunni.

Gengi Arion lækkaði um 2,99% í dag og nam velta félagsins 646 milljónir króna. Hlutabréf bankans hafa lækkað um 9,72% undanfarin mánuð og er hlutabréfaverð nú 130 krónur á hvern hlut.

Icelandair lækkaði einnig um 1,63% eftir að hafa lækkað um 0,81% við lokun gærdagsins. Eins lækkaði úrvalsvísitalan um 1,50% og hefur gengi hennar ekki verið lægra síðan í desember 2020.