Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,9% í 4,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða tæplega einn milljarður króna, var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um nærri eitt prósent. Gengi Marels stendur nú í 626 krónum á hlut.
Sjö félög á aðalmarkaðnum lækkuðu um tvö prósent eða meira; Alvotech, Reitir, Ölgerðin, Íslandsbanki, Eik, Play og Skel. Þess má þó geta að velta með tvö síðastnefndu bréfin var innan við hálf milljón hjá hvoru félagi um sig.
Þrjú félög á aðalmarkaðnum hækkuðu í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Festi hækkaði um 0,7% í tæplega hundrað milljóna veltu og stendur nú í 286 krónum á hlut. Gengi Oculis hækkaði einnig um hálft prósent í nærri 150 milljóna veltu.
Þá hækkaði hlutabréfaverð Kaldalóns um 0,4% í tuttugu milljóna veltu og stendur nú í 25,2 krónum á hlut. Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins, sem birti fjárhagsupplýsingar um fyrstu níu mánuði ársins eftir lokun markaða í gær, hefur hækkað um 43,7% í ár og hefur aldrei verið hærra.