Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu við opnun markaða í kjölfar þess að Moody’s lækkaði lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna um eitt þrep, úr Aaa í Aa1.
Ákvörðunin hefur ýtt undir auknar áhyggjur af sjálfbærni ríkisfjármála í stærsta hagkerfi heimsins.
Samhliða lækkuninni hafa framvirkir samningar með bandarískar hlutabréfavísitölur gefið til kynna verulega lækkun er markaðir opna vestanhafs síðar í dag.
Skuldabréfamarkaðir undir þrýstingi
Eftir lækkun Moody’s jukust viðskipti með bandarísk ríkisskuldabréf og verð féll, sem leiddi til hækkunar á ávöxtunarkröfu.
Ávöxtunarkrafa 30 ára ríkisskuldabréfa fór í 5,02%, hæsta gildi síðan í nóvember 2023.
Krafan á 10 ára bréfin fór í 4,54%, sem jafngildir 10 punkta hækkun frá lokun markaða á föstudag. Hækkun á ávöxtunarkröfu endurspeglar aukna áhættuálagningu fjárfesta vegna versnandi skuldastöðu ríkissjóðs.
Á sama tíma lækkaði WSJ Dollar Index um 0,56% og gullverð tók við sér á ný, þar sem fjárfestar sækja í öruggar eignir í ljósi vaxandi óvissu á mörkuðum.
Framvirkir samningar með helstu bandarísku vísitölur benda til lækkunar í dag: E-mini Nasdaq 100 hefur lækkað um 1,53%, E-mini S&P 500 hefur lækkað um 1,16% og E-mini Dow Jones hefur lækkað um 0,78%.
Á sama tíma lækkaði WSJ Dollar Index um 0,56% og gullverð tók við sér á ný, þar sem fjárfestar sækja í öruggar eignir í ljósi vaxandi óvissu á mörkuðum.
Framvirkir samningar með helstu bandarísku vísitölur benda til lækkunar í dag: E-mini Nasdaq 100 hefur lækkað um 1,53%, E-mini S&P 500 hefur lækkað um 1,16% og E-mini Dow Jones hefur lækkað um 0,78%.
Samkvæmt WSJ benda samningarnir til þess að tæknifyrirtæki verði undir söluþrýstingi í viðskiptum dagsins.
Evrópskir markaðir byrjuðu einnig daginn á lækkunum en Stoxx Europe 600 hefur lækkað um 0,7% og DAX vísitalan lækkaði um 0,8% í morgun. CAC 40 vísitalan í Frakklandi opnaði 0,9% lægri á meðan FTSE 100 hefur lækkað um 0,7%.
Lækkun Moody’s virðist hafa orðið vendipunktur í viðhorfi fjárfesta gagnvart bandarískum ríkisskuldabréfum og öðrum dollartengdum eignum.
Fjárfestar eru nú farnir að endurmeta þann trúverðugleika sem Bandaríkin hafa notið sem örugg fjárfesting, sérstaklega í ljósi versnandi skuldastöðu, hárrar vaxtabyrði og pólitísks skorts á aðhaldi.
Greiningaraðilar Deutsche Bank benda á að markaðurinn sé að endurskoða vilja sinn til að fjármagna svokallaða „tvíþætta halla“ Bandaríkjanna, þ.e. í ríkisfjármálum og í viðskiptajöfnuði.
Sérfræðingar bankans telja að nettóstaða Bandaríkjanna gagnvart útlöndum versni hratt, og að fjárfestar hafi hingað til vanmetið þá fjárhagslegu áhættu sem í raun blasir við.
Jafnframt er bent á að vegna stöðu stjórnmálanna í Washington sé lítil von til þess að fjárlagastefnu verði breytt í náinni framtíð.