Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) hefur varað við frumvarp fjármálaráðherra um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna muni grafa undan markmiðum endurhæfingar og virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Í umsögn sem skilað var inn í dag skorar stjórn LÍ á Alþingi að endurskoða frumvarpið í samráði við fag- og hagsmunaaðila „með það að markmiði að tryggja jafnvægi milli eðlilegrar tryggingaverndar, raunhæfra hvata til endurhæfingar og virkrar þátttöku á vinnumarkaði."

Umrætt frumvarp felur í sér að lífeyrissjóðum verði óheimilt að taka tillit til greiðslna frá almannatryggingum við mat á tekjutapi örorkulífeyrisþega.

LÍ segir umsagnir um frumvarpið og dæmi í fjölmiðlum hafa sýnt skýrt fram á það að lágmarkstryggingarvernd hjá einstaklingum með réttindi hjá lífeyrissjóði að viðbættum greiðslum frá almannatryggingum munu í mörgum tilfella verða hærri en þær voru áður en örorka átti sér stað.

„Þar með verður enginn fjárhagslegur hvati til að snúa aftur til vinnu. Um leið eykst langvarandi örorka, sem annars mætti jafnvel koma í veg fyrir með endurhæfingu og viðeigandi meðferð. Þá má einnig búast við aukinni ásókn í örorkumat og lægri endurhæfingartíðni, sem getur haft langtímaáhrif á lífeyriskerfið, heilbrigðiskerfið, atvinnumarkað og samfélagið í heild.“

Geti haft kerfisbundin áhrif á hegðun og niðurstöður matsferla

Stjórn LÍ undirstrikar að þessi afstaða beinist ekki gegn örorkubótum sem slíkum. Örorkulífeyrir sé mikilvægt öryggisnet fyrir þá sem sannanlega þurfa á honum að halda.

„Sem fagfélag þeirra lækna sem meðal annars meta fólk til endurhæfingar og örorku, ber stjórn LÍ að vekja athygli á því þegar breytingar í kerfinu geta haft kerfisbundin áhrif á hegðun og niðurstöður matsferla. Þegar fjárhagsleg kerfi skapa óæskilega hvata, mun það draga úr virkni annarra þátta, þar á meðal læknisfræðilegrar endurhæfingar. Við þessu varar stjórn LÍ við.“

Kalla eftir greiningu á áhrifum frumvarpsins

Læknafélagið segir að þörf sé á að fyrir liggi rækileg greining á áhrifum frumvarpsins, verði það að lögum, bæði á einstaklinga og á lífeyriskerfið í heild.

„Óásættanlegt er að ráðast í svo veigamikla breytingar án þess að unnið sé heildstætt mat á því hvað er æskileg tryggingarvernd og mögulegum langtímaafleiðingum. Líkt og áður hefur verið bent á getur tryggingavernd farið yfir 100% af fyrri tekjum einstaklings. Það er í andstöðu við grunnforsendur tryggingakerfa sem eiga að bæta tjón að hluta eða öllu leyti, en ekki neitt umfram það.“

Með tryggingarvernd er átt við allar greiðslur frá hinu opinbera (að mestu frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) og úr skyldutryggingu lífeyrissjóðs hjá þeim sem eigi slík réttindi). Tryggingarverndin er ákveðið hlutfall af viðmiðunartekjum viðkomandi en það eru tekjur viðkomandi áður en hann varð öryrki.