Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, er harðorður í garð stjórnvalda og stjórnsýslunnar í pistli sem birtist í dag á Vísi. Endalausar lagaflækjur, ágallar í málsmeðferð og mistök við lagasetningu hafi leitt til þess að Hvammsvirkjun sé komin aftur á byrjunarreit, aldarfjórðungi eftir að virkjunin komst fyrst á teikniborðið.
Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 15. júní 2025 þess efnis að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að gera breytingar á vatnshloti í Þjórsá og þar með féll úr gildi ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka Hvammsvirkjun.
Hörður bendir á að ekkert athugavert hafi fundist við virkjunina sjálfa og málið hafi ekkert með náttúruvernd að gera. Landsvirkjun hafi á síðustu áratugum unnið að undirbúningi virkjunarinnar, rannsóknir gerðar og unnið að mótvægisaðgerðum til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmda. Einnig hafi verið samið við alla handhafa vatnsréttinga og landsréttinda á áhrifasvæði virkjunarinnar.
„Landsvirkjun leitast alltaf við að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir. Ógnarlöng leyfisferli, kærufrestir á kærufresti ofan og mistök við lagasetningu hafa dregið byggingu Hvammsvirkjunar úr öllu hófi. Þá hefur stjórnsýslan oftar en ekki tekið sér miklu lengri tíma við afgreiðslu mála en eðlilegt og lögbundið er. Með þessu móti hafa tapast milljarðar og enn sjáum við ekki hvenær allur sá kostnaður orkufyrirtækis þjóðarinnar fer að skila sér til baka með sölu á orku. Eigendur Landsvirkjunar, íslenska þjóðin, eiga það ekki skilið að svona sé farið með fjármuni hennar,“ skrifar Hörður.
Ótrúleg og óskilvirk málsmeðferð
Saga Hvammsvirkjunar er rakin í pistlinum en í júní árið 2021 var ákveðið að sækja um virkjunarleyfi og í framhaldinu framkvæmdaleyfi. Alþingi hafði þá samþykkt virkjunina í nýtingarflokk, umhverfismat verið endurnýjað, Minjastofnun gefið leyfi og aðalskipulag og deiluskipulag samþykkt, svo fátt eitt sé nefnt.
Veiting virkjunarleyfis hafi alla jafna tekið um 3-5 mánuði en gert var ráð fyrir að framkvæmdir við virkjunina myndu hefjast um mitt ár 2022 og hún kæmi í rekstur 2026.
„En nú hófst einhver ótrúlegasta og óskilvirkasta málsmeðferð sem nokkurt verkefni á Íslandi hefur gengið í gegnum,“ skrifar Hörður.
Það hafi tekið eitt og hálft ár fyrir Orkustofnun að afgreiða virkjunarleyfi, sem kom í desember 2022. Í millitíðinni hafði þáverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákveðið að leggja fram vatnaáætlun í fyrsta sinn, án þess að samræmi hafi verið tryggt á milli vatnaáætlunarinnar og rammaáætlunar né að viðeigandi stofnanir hafi verið styrktar til að takast á við verkefnið.
„Þetta dró sannarlega dilk á eftir sér,“ skrifar Hörður.
Komin á byrjunarreit vegna formgalla
Í júní 2023 felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfið úr gildi, með vísan til þess að við veitingu virkjunarleyfis hefði Orkustofnun ekki haft nauðsynlegt samráð við Umhverfisstofnun um hvort að fyrirhuguð framkvæmd samræmdist vatnáætlun. Í niðurstöðu nefndarinnar komu fram leiðbeiningar fyrir leyfisveitendur um með hvaða hætti væri unnt að sækja um og veita heimild til breytinga á vatnshloti skv. 18. gr. laga um stjórn vatnamála.
Orkustofnun hóf í kjölfarið nýja málsmeðgerð við að undirbúa veitingu virkjunarleyfis, í samræmi leiðbeiningar nefndarinnar, og gaf leyfi út að nýju í september 2024, 15 mánuðum eftir að fyrra leyfi var fellt úr gildi. Svo fór sem áður segir að það leyfi var fellt úr gildi með dómi héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku.
Hörður bendir á að Hvammsvirkjun hafi uppfyllt öll skilyrði sem gerð eru til undirbúnings virkjana árið 2021.
„Samt erum við í þeirri stöðu árið 2025 að þurfa að sækja aftur um nýtt virkjunarleyfi á grundvelli nýrra laga sem Alþingi samþykkti samhljóða nú í júní og öðluðust gildi 3. júlí. Við erum því á ný komin á byrjunarreit, ekki vegna annmarka á umsókn, mati á umhverfisáhrifum, rannsóknum, mótvægisaðgerðum eða öðru, heldur eingöngu formgalla. Landsvirkjun þarf því á ný að hefja umsóknarferlið með tilheyrandi kæruferli sem enn getur tafið verkefnið,“ segir Hörður.
Að lokum bendir Hörður á að vilji löggjafans hafi verið skýr, og sé enn. Allir þingmenn sem staddir voru í þingsal hafi stutt þær breytingar á lögum um stjórn vatnamála og það ríki mjög almennur vilji til að þessu langa og flókna spili ljúki loks og hægt sé að hefjast handa við meiri orkuöflun.
„Styttra og betra leyfisveitingaferli þarf alls ekki að þýða að gefinn sé nokkur afsláttur af náttúruvernd. Þessar áralöngu tafir hafa heldur ekki haft neitt með náttúruvernd að gera. Tafir við rammaáætlun, óvönduð stjórnsýsla, tví- og þríverknaður í umsagnarferli og leyfisveitingu, lagaflækjur og mistök hafa einkennt þetta ferli öðru fremur.“