Nýlega var stofnuð hugbúnaðarlausn sem heitir Jónsbók en hún er ætluð lögfræðingum og öðrum sérfræðingum sem fást við lögfræði í störfum sínum. Að Jónsbók koma Ágúst Heiðar Gunnarsson, Bjarni Benediktsson, Bjarni Bragi Jónsson og Thelma Christel Kristjánsdóttir.

Lausn Jónsbókar byggist á réttarheimildum og lögskýringargögnum og notast við gervigreind til að flýta fyrir tímafrekri vinnu.

Samkvæmt stofnendum er Jónsbók þegar komin með næstum 300 áskrifendur þrátt fyrir að vera aðeins nokkurra mánaða gömul. Lausnin var gefin út í október í fyrra og er nú notuð af fjölda ráðuneyta, opinberra stofnana, fjármálafyrirtækja, stéttarfélaga og lögmannsstofa.

„Við fengum fyrsta áskrifandann í október og erum núna að detta í 300 áskrifendur. Við erum mjög stolt af því, sérstaklega í ljósi þess að það hefur ekkert verið fjallað opinberlega um þetta og er velgengnin aðeins keyrð áfram af ummælum annarra notenda.“

Thelma lýsir Jónsbók sem duglegum laganema sem geri allt sem notandi biður um með ótrúlegum hraða. Þá sé hægt að flýta fyrir tímafrekri vinnu og finna lög, dóma, reglugerðir og úrskurðarnefndir á örfáum sekúndum.

„Við fengum sendan póst frá einum laganema sem komst yfir aðgang hjá okkur. Þessi nemi notaði Jónsbók til að hjálpa sér við að skrifa ritgerðina á einni kvöldstund í stað nokkurra daga og endaði með 9 í einkunn.“