Christine Lagar­de, for­seti Evrópska seðla­bankans, vildi lítið segja til um hve­nær vextir yrðu lækkaðir á blaða­manna­fundi í dag í kjöl­farið þess að bankinn á­kvað að halda megin­vöxtum sínum ó­breyttum.

Stýri­vextir Evrópska seðla­bankans eru ó­breyttir í 4% en vextirnir hafa aldrei verið hærri.

Sam­kvæmt Financial Times hafa fjár­festar víðs vegar í Evrópu og Banda­ríkjunum verið að veðja á vaxta­lækkanir á nýju ári en það eina sem fékkst úr blaða­manna­fundi Evrópska seðla­bankans í dag var að evru­svæðið muni lík­legast ekki ná verð­bólgu­mark­miði sínu fyrr en 2025.

Peninga­stefnu­nefnd bankans tók þó fram að verð­bólga á evru­svæðinu hafi hjaðnað en að þeirra mati sé hún lík­leg til að hækka aftur á nýju ári.

Árs­verð­bólga á evru­svæðinu, sem nær til 20 landa, mældist 2,4% í nóvember og hefur hún ekki verið lægri í tvö ár en af þeim sökum hafa fjár­festar veðjað á vaxta­lækkanir snemma á næsta ári.

Jerome Powell seðla­banka­stjóri Banda­ríkjanna greindi frá því í gær­kvöldi að hann eigi von á því að vextir lækki um 0,75% árið 2024 en stýri­vextir vestan­hafs héldust þó ó­breyttir að sinni.

Eng­lands­banki hélt einnig megin­vöxtum sínum ó­breyttum í dag en vextir bankans eru nú 5,25%. Að mati bankans eru enn merki um að mikill verð­bólgu­þrýstingur sé í Bret­landi þrátt fyrir að dregið hafi úr efna­hags­um­svifum.

Ida Wolden Bache, seðla­banka­stjóri Noregs, á­kvað í morgun að hækka vexti um 25 punkta en að hennar mati er verð­bólga í Noregi enn allt­of há.