Christine Lagarde, forseti Evrópska seðlabankans, vildi lítið segja til um hvenær vextir yrðu lækkaðir á blaðamannafundi í dag í kjölfarið þess að bankinn ákvað að halda meginvöxtum sínum óbreyttum.
Stýrivextir Evrópska seðlabankans eru óbreyttir í 4% en vextirnir hafa aldrei verið hærri.
Samkvæmt Financial Times hafa fjárfestar víðs vegar í Evrópu og Bandaríkjunum verið að veðja á vaxtalækkanir á nýju ári en það eina sem fékkst úr blaðamannafundi Evrópska seðlabankans í dag var að evrusvæðið muni líklegast ekki ná verðbólgumarkmiði sínu fyrr en 2025.
Peningastefnunefnd bankans tók þó fram að verðbólga á evrusvæðinu hafi hjaðnað en að þeirra mati sé hún líkleg til að hækka aftur á nýju ári.
Ársverðbólga á evrusvæðinu, sem nær til 20 landa, mældist 2,4% í nóvember og hefur hún ekki verið lægri í tvö ár en af þeim sökum hafa fjárfestar veðjað á vaxtalækkanir snemma á næsta ári.
Jerome Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna greindi frá því í gærkvöldi að hann eigi von á því að vextir lækki um 0,75% árið 2024 en stýrivextir vestanhafs héldust þó óbreyttir að sinni.
Englandsbanki hélt einnig meginvöxtum sínum óbreyttum í dag en vextir bankans eru nú 5,25%. Að mati bankans eru enn merki um að mikill verðbólguþrýstingur sé í Bretlandi þrátt fyrir að dregið hafi úr efnahagsumsvifum.
Ida Wolden Bache, seðlabankastjóri Noregs, ákvað í morgun að hækka vexti um 25 punkta en að hennar mati er verðbólga í Noregi enn alltof há.