Ríki á evrusvæðinu munu að öllu óbreyttu ekki geta staðið undir „rausnarlegum velferðarsamfélögum, mikilvægum fjárfestingum og tæklað loftlagsvandann“ ef ríkin snúa ekki við þeim stöðuga samdrætti sem hefur verið að hrjá svæðið, samkvæmt Christine Lagarde, forseta Evrópska Seðlabankans (ECB) en Financial Times greinir frá.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá varaði Evrópski seðlabankinn við yfirvofandi skuldakreppu á evrusvæðinu í morgun.
Á blaðamannafundi í París sagði Lagarde að án afgerandi efnahagslegra aðgerða muni Evrópusambandið ekki geta skapað þá auðsuppsprettu sem nauðsynleg er til að mæta vaxandi útgjöldum vegna öryggismála, loftslagsmála og umhverfisverndar.
Þá sagði hún mögulegt viðskiptastríð við Bandaríkin, sem sérfræðingar telja líklegt eftir kjör Donalds Trumps, muni skaða efnahag evrusvæðisins enn frekar.
Samkvæmt FT ræddi hún ekki með beinum hætti áhættuna af tollum á útflutning til Bandaríkjanna en hún sagði „landslagsmynd alþjóðastjórnmála“ hafa „brotnað í tvær andstæðar einingar þar sem viðhorf til frjálsra viðskipta væri undir.“
„Við þurfum að aðlagast fljótt að breyttu umhverfi og endurheimta tapaða samkeppnishæfni og nýsköpun,“ sagði Lagarde í París.
Joachim Nagel, forseti þýska Seðlabankans og stjórnarmeðlimur Evrópska Seðlabankans, tók í sama streng í ræðu í Tókýó á mánudaginn.
Nagel sagði heiminn vera á barmi þess að sundrast efnahagslega. „Þessi þróun er áhyggjuefni og við ættum öll að vinna að því að endurreisa frjáls viðskipti.
Þótt ekki verði af viðskiptastríði við Bandaríkin mun bilið milli landsframleiðslu í Evrópu og Bandaríkjunum halda áfram að breikka til loka áratugarins.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hringdi viðvörunarbjöllum fyrir framtíð Evrópu í síðasta mánuði er sjóðurinn birti skýrslu sem sýndi að meginland Evrópu „skorti kraft í viðskiptum.“
Í skýrslu AGS var bent á það að öldrun vinnuafls í Evrópu samhliða lítilli framleiðni muni valda því að meðalhagvöxtur á ári verði einungis um 1,45% á evrusvæðinu.
Til samanburðar er hagvöxtur Bandaríkjanna áætlaður um 2,29% á sama tímabili.
Samkvæmt hagspá Hagstofu Íslands er spáð 3% hagvexti á Íslandi á næsta ári og 2,7% árið 2026.
FT segir að evrusvæðið hafi verið mun lengur að komast aftur á skrið eftir efnahagshrunið 2008 og eftir kórónuveirufaraldurinn.
Líkt og Seðlabankinn greindi frá í morgun hefur Íslandi tekist að vinna upp framleiðslutap faraldursins mun hraðar en önnur ríki.