Ríki á evru­svæðinu munu að öllu óbreyttu ekki geta staðið undir „rausnar­legum vel­ferðar­sam­félögum, mikilvægum fjár­festingum og tæklað loft­lags­vandann“ ef ríkin snúa ekki við þeim stöðuga sam­drætti sem hefur verið að hrjá svæðið, samkvæmt Christine Lagar­de, for­seta Evrópska Seðla­bankans (ECB) en Financial Times greinir frá.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá varaði Evrópski seðla­bankinn við yfirvofandi skulda­kreppu á evru­svæðinu í morgun.

Á blaða­manna­fundi í París sagði Lagar­de að án af­gerandi efna­hags­legra að­gerða muni Evrópu­sam­bandið ekki geta skapað þá auðs­upp­sprettu sem nauð­syn­leg er til að mæta vaxandi út­gjöldum vegna öryggis­mála, lofts­lags­mála og um­hverfis­verndar.

Þá sagði hún mögu­legt við­skipta­stríð við Bandaríkin, sem sér­fræðingar telja lík­legt eftir kjör Donalds Trumps, muni skaða efna­hag evru­svæðisins enn frekar.

Sam­kvæmt FT ræddi hún ekki með beinum hætti áhættuna af tollum á út­flutning til Bandaríkjanna en hún sagði „lands­lags­mynd alþjóða­stjórn­mála“ hafa „brotnað í tvær and­stæðar einingar þar sem viðhorf til frjálsra við­skipta væri undir.“

„Við þurfum að aðlagast fljótt að breyttu um­hverfi og endur­heimta tapaða sam­keppnis­hæfni og nýsköpun,“ sagði Lagar­de í París.

Joachim Nagel, for­seti þýska Seðla­bankans og stjórnar­meðlimur Evrópska Seðla­bankans, tók í sama streng í ræðu í Tókýó á mánu­daginn.

Nagel sagði heiminn vera á barmi þess að sundrast efna­hags­lega. „Þessi þróun er áhyggju­efni og við ættum öll að vinna að því að endur­reisa frjáls við­skipti.

Þótt ekki verði af við­skipta­stríði við Bandaríkin mun bilið milli lands­fram­leiðslu í Evrópu og Bandaríkjunum halda áfram að breikka til loka ára­tugarins.

Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn hringdi viðvörunar­bjöllum fyrir framtíð Evrópu í síðasta mánuði er sjóðurinn birti skýrslu sem sýndi að megin­land Evrópu „skorti kraft í við­skiptum.“

Í skýrslu AGS var bent á það að öldrun vinnu­afls í Evrópu sam­hliða lítilli fram­leiðni muni valda því að meðal­hag­vöxtur á ári verði einungis um 1,45% á evru­svæðinu.

Til saman­burðar er hag­vöxtur Bandaríkjanna áætlaður um 2,29% á sama tíma­bili.

Sam­kvæmt hag­spá Hag­stofu Ís­lands er spáð 3% hag­vexti á Ís­landi á næsta ári og 2,7% árið 2026.

FT segir að evru­svæðið hafi verið mun lengur að komast aftur á skrið eftir efna­hags­hrunið 2008 og eftir kórónu­veirufar­aldurinn.

Líkt og Seðla­bankinn greindi frá í morgun hefur Ís­landi tekist að vinna upp fram­leiðslutap far­aldursins mun hraðar en önnur ríki.