Samkvæmt heimildum Markaðarins , nema skuldbindingar útgerðarfélagsins Brims gagnvart Landsbankanum yfir 20% af eiginfjárgrunni bankans, eftir að bankinn fjármagnaði 22 milljarða króna kaup félagsins á ríflega þriðjungshlut í HB Granda. Bankinn vill ekki lána Brimi fyrir kaupum á stærri hlut, enda gæti þá áhætta bankans gagnvart sjávarútvegsfélaginu farið yfir 25% leyfilega hámarkið sem kveðið er á um í reglum Fjármálaeftirlitsins.

Ef minnihlutahafar HB Granda taka yfirtökutilboði Brims þarf Brim því að leita annað eftir fjármögnun.

Það kemur einnig til greina hjá Brimi að selja þriðjungshlut félagsins í Vinnslustöðinni eða félaginu Ögurvík til þess að fjármagna kaupin. Það er þó ekki til þess fallið að auðvelda kaupin, að virði hluta félagsins í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum er metið nærri tvöfalt meira í bókum félagsins en í nýlegu verðmati sem gert var á vinnslustöðinni.