Esther Finnbogadóttir, starfsmaður Fjármálaráðuneytisins, segir hugsanlegt að eftirstöðvar láns sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitti Íslandi í kjölfar falls fjármálakerfisins haustið 2008 verði endurgreiddar fyrr en áætlað er. Þetta kemur fram á mbl.is .

Gjalddagar eftirstöðvanna eru í lok þessa árs og á fyrrihluta næsta árs. Nú hafa 83% af láninu frá AGS verið endurgreidd, en eftirstöðvarnar nema um 43 milljörðum króna. Upphaflega nam lánið 253 milljörðum króna.

Esther segir að það sé Seðlabanka Íslands að ákveða hvort eftirstöðvarnar verði greiddar fyrir gjalddaga og meta hvort aðstæður bjóði upp á það.

Ríkissjóður Íslands tilkynnti í dag að lán frá Póllandi yrði greitt upp að fullu fyrir gjalddaga þess, en endurgreiðslan nemur um 7,3 milljörðum íslenskra króna. Þar með hafa öll lán sem fengust frá vinaþjóðum Íslendinga í kjölfar hrunsins verið endurgreidd.