Óstöðug viðskiptastefna Bandaríkjanna, með síendurteknum tollaaðgerðum Donalds Trump, hefur aukið þrýsting á lánavafninga (e. Collateralised Loan Obligations, CLOs).
Sjóðstjórar eru byrjaðir að bregðast við með því að færa til áhættusamari lán, samkvæmt nýrri greiningu Financial Times.
Lánavafningar (CLOs) eru flókin fjárfestingarvara sem samanstendur af lánum skuldsettra fyrirtækja með lélegt lánshæfi (e. leveraged loans)
Fjármálafyrirtæki setja lánin saman í verðbréf í mismunandi áhættuflokkum sem síðan eru seld fjárfestum í sneiðum (e. tranches) með mismunandi væntingum um ávöxtun og áhættu.
Hæsti flokkur fær reglulegar greiðslur með lágri áhættu, en neðsti flokkur (svokallaður equity tranche) tekur mestu áhættuna en á að sama skapi rétt á hærri ávöxtun.
Við núverandi aðstæður hafa sérfræðingar í greiningum hjá stórum bönkum, þar á meðal Bank of America, bent á að ef tollastefna Bandaríkjastjórnar helst óbreytt, megi gera ráð fyrir að lánshæfismat fjölmargra fyrirtækja lækki.
Á undanförnum vikum hafa vaxtakjör á skuldabréfum fyrirtækja með lánshæfi í ruslflokki hækkað verulega, á sama tíma og ný útgáfa hefur dregist saman.
Roberta Goss, framkvæmdastjóri skuldasviðs hjá Pretium, segir líklegt að samdráttur í hagvexti muni leiða til aukinna afskrifta og lækkana á lánshæfiseinkunum á næstu 12 mánuðum.
Slíkt gæti þrýst undirliggjandi skuldabréfum niður í svokallaðan CCC-lánshæfisflokk.
Almennt gilda takmörk um að lánavafningar megi ekki vera með meira en 7,5% af skuldabréfum sínum í CCC-lánshæfisflokknum.
Samkvæmt gögnum Bank of America var þetta hlutfall að jafnaði um 6% í bandarískum vafningum nýverið, en bankinn býst við því að það fari yfir 7,7% til skamms tíma ef tollastefnan helst óbreytt.
Ef þessi mörk eru rofin geta sjálfvirk varnarviðbrögð vafninganna virkjast. Þau fela m.a. í sér að greiðsluflæði færist frá fjárfestum í áhættusamasta hlutanum (svokallaður equity tranche) til þeirra sem eru í tryggari flokkunum, til að verja vafninginn fyrir tapi.
Verði það raunin mun það draga verulega úr aðdráttarafli þessarar fjárfestingarvöru fyrir áhættufjárfesta.
Þrátt fyrir að lánavafningar af þessu tagi hafi enn svigrúm til að taka á sig meiri lækkun eru sjóðstjórar þegar byrjaðir að bregðast við stöðunni.
Greiningaraðilar segja að stjórnendur séu farnir að draga úr vægi lána í B-flokki, sem eru aðeins einu lánshæfisstigi frá því að teljast CCC.
Goldman Sachs hefur þegar hækkað spá sína um gjaldþrot skuldsettra fyrirtækja í Bandaríkjunum.
Fjárfestingarbankinn býst nú við að hlutfall gjaldþrota verði 8% á næstu 12 mánuðum, samanborið við fyrri spá upp á 3,5%.
Auk þess hefur hlutfall fyrirtækjaskulda í Bandaríkjunum sem verslað er með á undir 90 sentum á hvern dal hækkað úr 6% í meira en 10%.
Slíkar breytingar þykja oft undanfari afskrifta eða skuldauppstokkunar.
Lánavafningar eru burðarás í fjármögnun lántaka með veikara lánshæfi. Núverandi þróun í tollastefnu og lánshæfismati gæti þrengt að þessu kerfi, sérstaklega ef hlutfall lána í ruslflokki fer yfir sjálfvirku mörkin.