Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði vegna stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi hefur lagt til að ríkissjóður komi til móts við verðhækkanir á aðföngum með 2.460 milljóna króna stuðningi í ár. Nú þegar hefur verið komið til móts við hækkun á áburðarkostnaði sem nemur 650 milljónum.
„Ætla má að greinin sjálf, afurðafyrirtæki, verslunin og neytendur eigi eftir að takast á við kostnaðarauka af svipaðri stærðargráðu,“ segir í tilkynningu á ráðuneytisins.
Starfshópurinn áætlar, með fyrirvara um óvissu um þróun næstu mánaða, að rekstrarkostnaður landbúnaðar árið 2022 hafi hækkað um 8,9 milljarða vegna hækkana á áburði, kjarnfóðri, olíu og rúlluplasti í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þar af hækkar áburður um 3 milljarða milljónir, fóður um 4,5 milljarða og olía og plast um 1,4 milljarða. Áætlað er að hækkanir á afurðaverði, sem þegar eru komnar fram, muni skila um 3,6 milljörðum í auknum tekjum á þessu ári.
„Eftir stendur kostnaðarauki upp á 4.650 milljónir en auk þessa hækka flestir aðrir kostnaðarliðir verulega milli ára. Þessar verðhækkanir hafa þegar veikt rekstrargrundvöll bænda mjög mikið og dregið úr framleiðsluvilja.“
Í tilkynningu matvælaráðuneytisins segir að þessar hækkanir hafi og muni hafa alvarleg áhrif á rekstur bænda. Framboð á innlendri vöru geti því dregist saman á næstunni með tilheyrandi áhrifum á fæðuöryggi.
Skýrsla starfshópsins, sem Steingrímur J. Sigfússon leiddi, fjallar um áhrif verðhækkana á ólíkar búgreinar, viðnámsþrótt þeirra, þróun á markaði það sem af er ári og líkleg áhrif þess ef stjórnvöld aðhafast ekkert.
„Miðað við þau gögn sem hópurinn hafði til að vinna úr bendir allt til þess að staða sauðfjárræktar og nautakjötsframleiðslu sé verst.“
Tímabundin heimild til samstarfs
Tillögur spretthópsins eru í sex liðum fyrir árið 2022. Í fjórum þeirra er lagt til að greitt verði álag á ákveðnar greiðslur samkvæmt gildandi búvörusamningum, samtals 2.460 milljónir króna. Um er að ræða greiðslur samkvæmt öllum búvörusamningunum fjórum auk þess sem 450 milljónir eru ætlaðar til stuðnings svína-, alifugla- og eggjaframleiðslu þar sem ekki er um slíka samninga að ræða.
Auk þess er lagt til að kjötafurðafyrirtækjum verði veitt tímabundin heimild til samstarfs „með það að markmiði að hvetja til hagræðingar innan geirans“. Heimildin yrði bundin ákveðnum skilyrðum sem lagt er til að verði unnin í samráði við Samkeppniseftirlitið. Þá er lagt til að komið verði á sérstökum vakthópi um fæðuöryggi.
Til viðbótar leggur hópurinn fram átta tillögur að aðgerðum sem miðast við lengra tímabil. Þær snerta m.a. neyðarbirgðahald, eflingu grænmetisframleiðslu, kornræktar, jarðræktarrannsókna, lífræna framleiðslu og aukið fæðuöryggi landsins.
„Á tímum sem þessum þegar fæðuöryggi er ógnað er mikilvægt að við stígum þau skref sem þarf til þess að styðja við innlenda framleiðslu á matvælum. Það er von mín að þessar aðgerðir muni stappa stálinu í bændur sem hafa glímt við versnandi afkomu á þessu ári og lengur. Við munum komast í gegnum þennan skafl og til framtíðar litið er útlitið bjart fyrir íslenskan landbúnað,” segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.