Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur ákveðið að hætta við vindorkugarð í Lyklafelli í Mosfellsbæ. Þetta kemur fram í minnisblaði Heru Grímsdóttur, framkvæmdastýru Rannsókna og nýsköpunar hjá OR til Sævars Freys Þráinssonar forstjóra.

Ástæðan er sú að samningaviðræður við landeiganda hafa ekki gengið eftir. Lyklafell er í landi Mosfellsbæjar. Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ er sveitarfélagið ekki landeigandinn sem um ræðir. Við Lyklafell eru nokkrar jarðir í eigu einkaaðila.

Sumarið 2023 tilkynnti Orkuveitan um að verið væri að skoða að reisa vindorkugarða í nágrenni Hellisheiðar. Lagði hún fram beiðni til Orkustofnunar um að verkefnastjórn rammaáætlunar myndi fjalla um þrjá vindorkukosti á svæðinu, sem og dæluvirkjunar, sem nýtt yrði sem jöfnunarafl.

Kostirnir sem Orkuveitan lagði fram voru 50 til 150 MW vindorkugarður við Lambafell í Ölfusi og 50 til 108 MW garð við Dyraveg í Ölfusi. Þriðji kosturinn var 50 til 144 MW vindorkugarður við Lyklafell í Mosfellsbæ. Fyrirhugaðir garðar við Lyklafell og Dyraveg standa norðan megin við þjóðveginn, nærri Nesjavallaleið og Lambafell er í Þrengslunum.

Áhyggjur af flugumferð

Eins og áður sagði er í minnisblaðinu greint frá því að hætt hafi verið við garðinn við Lyklafell. Þar kemur jafnframt fram að OR hafi sent Skipulagsstofnun matsáætlun vegna garðsins við Dyraveg. Samkvæmt henni eru áform um að reisa 15 vindmyllur á svæðinu og að hæð þeirra verði að hámarki 210 metrar með spaða í hæstu stöðu.

Ýmsar umsagnir og athugasemdir hafa borist m.a. frá Samgöngustofu og Isavia. Í þeim umsögnum er bent á að þetta svæði sé það fjölfarnasta á Íslandi hvað flugumferð varðar. Isavia segir að fara þurfi á nákvæma greiningu á áhrifum vindmyllugarðsins við Dyraveg á flugumferð.