Óróleiki í alþjóðamálum undirstrikar mikilvægi þess að vera með öflug fjármálafyrirtæki með mikinn viðnámsþrótt sem starfa á sínum heimamarkaði,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, þegar hann er spurður út í hlutverk fjármálageirans á tímum vaxandi óvissu í alþjóðamálum.

„Sagan segir okkur að alltaf þegar eitthvað bjátar á í alþjóðlegu efnahagslífi þá fara þjóðir að hugsa um eigin hag. Þá skiptir miklu að vera með öflug innlend fyrirtæki sem sinna sínum heimamarkaði vel. Þar hefur okkur tekist vel með endurreisn fjármálakerfisins sem er með mikinn viðnámsþrótt.

Íslensku fjármálafyrirtækin eru vel fjármögnuð, bæði er kemur að eigin fé og lausafé, þrátt fyrir að hafa mætt miklum mótvindi síðustu ár,“ bætir Benedikt við.

Hann bendir á úttekt lánshæfismatsfyrirtækisins S&P þar sem segir m.a. að tækniþyrstir Íslendingar muni knýja áfram nýsköpun og að kröfur Íslendinga um þægilega og hnökralausa bankaþjónustu muni tryggja það að íslenskir bankar þrói áfram nýjar lausnir.

„Við sjáum þetta bersýnilega í því að 99% af snertingum fólks við íslenska banka í dag eru í gegnum stafrænar lausnir, og einungis 1% á sér stað á útibúum og þjónustusvæðum,“ segir Benedikt.

Spurður hvernig hann sjái hlutverk Arion banka þróast á næstu árum og áratugum segir hann að bankinn muni áfram fjárfesta í stafrænni þjónustu og að neytendur muni áfram njóta góðrar og skilvirkrar þjónustu. Spurningin sé síðan hvort þessi þjónusta þróist í auknum mæli yfir í að verða svokölluð innviðaþjónusta.

„Og þar eru tæknifyrirtækin að stíga inn – við þekkjum öll veskin í símanum sem eru bæði þægileg og örugg. Þar hafa tæknifyrirtækin orðið hluti af virðiskeðjunni og hafa af því góðar tekjur. Ég held að sú þróun haldi áfram. Yngri kynslóðirnar gera ráð fyrir að þetta verði allt samofið – allt jafnvel innan svokallaðra ofurappa – hvort sem það er fjármálaþjónusta, vöru-  og þjónustukaup eða eitthvað annað.“

Engin rök fyrir sértækum sköttum og kröfum

Benedikt telur engin sérstök rök fyrir því að halda einhverjum hluta af hinu margumtalaða Íslandsálagi.

Í stuttu máli á Íslandsálag við um allar þær álögur sem lagðar eru á innlend fjármálafyrirtæki í formi sértækra skatta, hærri eiginfjárkrafna og óvaxtaberandi bindiskyldu.

„Rökin fyrir því að setja á sértæka skatta á íslensk fjármálafyrirtæki á sínum tíma, árið 2010, voru þau að ríkissjóður væri að endurheimta hluta af þeim kostnaði sem hann hefði orðið fyrir vegna fjármálahrunsins,“ útskýrir Benedikt.

„Árið 2016 kemur út skýrsla um kostnað og endurheimtur ríkissjóðs af falli bankanna, eftir Ásgeir Jónsson og Hersi Sigurgeirsson. Þeir reiknuðu út að með þessari skattheimtu og öðrum ráðstöfunum eins og stöðugleikaframlögum hafi ríkissjóður náð þessum kostnaði til baka og rúmlega það. Síðan þá hafa þessir sértæku skattar sem hafa runnið til ríkissjóðs numið einhverjum 180 milljörðum króna að raunvirði.

Það er mikilvægt að átta sig á því að það er auðvitað alltaf einhver sem borgar þetta, þá annaðhvort hluthafarnir eða viðskiptavinirnir. Í þessu tilfelli eru báðir aðilar að standa straum af þessum kostnaði. Þá er mikilvægt að halda því til haga að 75% af hlutafénu í þessum kerfislega mikilvægu bönkum eru beint eða óbeint í eigu almennings í gegnum lífeyrissjóði og ríkissjóð,“ segir Benedikt og bætir við:

„Ég myndi segja að hreyfanleiki á fjármálamarkaði og fyrri breytingar á þessum sértæku sköttum, þ.e. lækkun bankaskatts árið 2020 og lækkun á vaxtamun eftir þá breytingu, benda eindregið til þess að ef þessar álögur lækka muni það skila sér til neytenda. Bankaskattur var lækkaður fyrir fimm árum síðan og það skilaði sér mjög hratt til neytenda.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir gífurleg tækifæri felast í því fyrir Ísland að nýta sína sérstöðu í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til verðmætasköpunar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Hreyfanleikinn mestur á Íslandi

Samanlagður hreyfanleiki neytenda þegar kemur að vörum á fjármálamarkaði mælist meiri hér á landi samanborið við önnur Evrópuríki, en mælikvarðinn sýnir hlutfall þeirra sem hafa skipt um þjónustuaðila einhverrar vöru á fjármálamarkaði. Þetta kemur fram í könnun sem SFF lét gera í gegnum Gallup á síðasta ári.

Benedikt segir að fjártæknibyltingin og ýmsir aðrir þættir eins og samkeppnissáttin svokallaða frá árinu 2017 hafi aukið á hreyfanleika á íslenskum fjármálamarkaði og eflt samkeppni á markaði á síðastliðnum árum. 

„Frá neytendahliðinni hafa jákvæðar breytingar átt sér stað hér á landi og það er merkilegt að hreyfanleiki sé mestur hér þegar horft er til Evrópulanda. Það er líka merkilegt hvað stafræna þjónustan er komin langt á eins litlu markaðssvæði og Ísland er, en vissulega heldur þessi mikli hreyfanleiki öllum aðilum á tánum,“ segir Benedikt.

Ríkið taki upp sömu stefnu og norska ríkið

Spurður hvernig eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum hér á landi kemur út í samanburði við eignarhald á bönkum í öðrum Evrópuríkjum bendir Benedikt á að einstaka þjóðir í álfunni hafi þurft að stíga inn og bjarga fjármálafyrirtækjum í kjölfar fjármálakrísunnar árið 2008.

Síðan þá hafi öll Evrópuríki leitað leiða við að selja sig út úr eignarhaldi á bönkum. 

„Fyrir utan eignarhald norska ríkisins í DNB og eignarhald færeysku landsstjórnarinnar á Færeyjabankanum, þá finnur þú ekki viðlíka eignarhald hins opinbera í bankageiranum eins og hér á Íslandi. Mín persónulega skoðun er sú að ríkið ætti að halda áfram sölu á hlut sínum í Íslandsbanka og taka upp eigendastefnu varðandi Landsbankann sem svipar til þeirrar stefnu sem norska ríkið er með gagnvart DNB. Þannig gæti ríkið skráð Landsbankann á markað en haldið eftir þriðjungshlut, og tryggt að stærsta fjármálafyrirtækið sé með starfsstöðvar hér á landi, líkt og DNB í Noregi.“

Gervigreind, fiskeldi og flugþjónusta

Benedikt segir gífurleg tækifæri felast í því fyrir Ísland að nýta sína sérstöðu í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til verðmætasköpunar.  

„Þar vil ég sérstaklega nefna eitt sem hefur ekki farið mikið fyrir. Fjárfesting í gagnaverum hér á landi nam um 90 milljörðum króna í fyrra, einkum í uppfærslu á tækjum og hugbúnaði fyrir gervigreind. Þessar fjárfestingar munu vonandi skila sér í aukinni verðmætasköpun á Íslandi. Ísland er eftirsóttur staður fyrir gagnaver, ekki eingöngu vegna endurnýjanlegrar orku og náttúrulegrar kælingar, heldur einnig vegna góðrar tækniþekkingar og öflugra tenginga. Vonandi byggist í kringum þennan vaxandi iðnað ýmis þjónustutengd hliðarstarfsemi og aukin þekking með samstarfi við háskólana. Það gæti styrkt stöðu Íslands ef við getum náð stöðu sem þekkingarland á þessu sviði,“ segir Benedikt og bætir við að landfræðileg lega Íslands veiti ákveðið forskot, sérstaklega í ljósi aukins áhuga Bandaríkjanna og annarra landa á Norðurslóðum. 

Hann segir fiskeldið, bæði á landi og í sjó, fela í sér mikil tækifæri fyrir Ísland, ekki síst vegna landfræðilegrar legu.

„Við erum nær bandaríska markaðnum en flestar aðrar þjóðir sem stunda eldi og því með lægri flutningskostnað. Þar að auki bitna nýir tollar í Bandaríkjunum hlutfallslega minna á íslenskum fyrirtækjum samanborið við sambærileg fyrirtæki frá öðrum löndum.“

Þá leggur Benedikt áherslu á að strategísk staða Íslands sé afar verðmæt, sérstaklega er varðar fólksflutninga yfir Atlantshafið.

„Engin flugfélög geta tengt Evrópu og NorðurAmeríku með jafn skilvirkum og umhverfisvænum hætti og íslensku flugfélögin. Nýjar, mjórri, langdrægari og sparsamari Airbus-vélar Icelandair geta aukið tengimöguleika – ekki aðeins til Evrópu og Bandaríkjanna, heldur einnig Asíu, eins og áður hefur komið fram.“

Benedikt segir gífurleg tækifæri felast í því fyrir Ísland að nýta sína sérstöðu í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til verðmætasköpunar.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Hlutfallsregla frekar en blýhúðun

„Í Bandaríkjunum er verið að reyna að styrkja samkeppnisstöðu með tollum, einföldun regluverks og minni ríkisumsvifum. Evrópuríki velta nú fyrir sér hvernig þau geti gert slíkt hið sama,“ segir Benedikt.

Draghi-skýrslan svokallaða hefur vakið töluverða umræðu. Í kjölfar birtingar skýrslunnar hefur Evrópusambandið sett sér markmið um að einfalda regluverk og draga úr álögum, með það að markmiði að minnka stjórnsýslubyrði um a.m.k. 25% fyrir stór fyrirtæki og 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. 

Benedikt segir að Ísland ætti að skoða sambærilega hluti.

„Við höfum tekið upp viðamikið regluverk sem er í grunninn ætlað stærri fjármálafyrirtækjum á stærri mörkuðum. En það eru tækifæri í því að innleiða reglurnar með einfaldari og sveigjanlegri hætti – t.d. með því að beita hlutfallsreglunni. Ég skynja jákvæða breytingu hjá íslenskum eftirlitsaðilum og tel mikilvægt að halda áfram á þeirri braut. Í dag skila íslensk fjármálafyrirtæki um hundrað mismunandi skýrslum til eftirlitsaðila og fer helmingurinn til evrópskra stofnana. Það eru sannarlega tækifæri til einföldunar.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu SFF dagurinn - Breyttur heimur, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.