Landsbankinn horfir til þess að auglýsa 35% eignarhlut sinn í hótelkeðjunni Keahótelum til sölu fyrir lok þessa árs. Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Túrista.

Landsbankinn, sem er helsti viðskiptabanki hótelfélagsins, eignaðist 35% hlut í Keahótelum í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar hjá hótelkeðjunni árið 2020. Bankinn kom einnig inn með frekara lánsfé á þessum tíma.

Félagið Prime Hotels ehf. á 65% hlut í Keahótelum á móti Landsbankanum. Prime Hotels er í helmingseigu Pt. Capital, fjárfestingarsjóðs frá Alaska. Þá eiga félögin JL Properties, sem er í eigu Jonathan B. Rubini, ríkasta manns Alaska, og Erkihvönn ehf., sem er í eigu Fannars Ólafssonar, Kristjáns M Grétarssonar, Þórðar Kolbeinssonar og Andra Gunnarssonar, hvor um sig 25% hlut í Prime Hotels.

Keahótel reka í dag tíu hótel. Hótelkeðjan hagnaðist um 260,7 milljónir króna árið 2022 samanborið við 1,9 milljóna hagnað árið áður. Eignir hótelkeðjunnar voru bókfærðar á tæplega 1,9 milljarða króna í árslok 2022 og eigið fé nam 134 milljónir króna.

Lykiltölur / Keahótel

2022 2021
Tekjur 5.869  2.933
Eignir 1.890  1.342
Eigið fé 134 -127
Afkoma 261    1
- í milljónum króna