Landsbankinn hefur gengið frá kaupum á TM Tryggingum af Kviku banka og nam kaupverðið 32,3 milljörðum króna.
Kaupin voru frágengin í dag, 28. febrúar 2025, þegar Landsbankinn greiddi kaupverðið og tók við eignarhaldi tryggingafélagsins.
Samkvæmt tilkynningu Kviku banka var upphaflega samið um kaupverð upp á 28,6 milljarða króna, en það var aðlagað í samræmi við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 fram að afhendingu í dag.
Kaupverðið nemur því um 32,3 milljörðum króna en gæti tekið frekari breytingum með hliðsjón af fjárhagsstöðu TM frá áramótum til dagsins í dag.
Sérstök arðgreiðsla til hluthafa Kviku
Í kjölfar sölu TM mun stjórn Kviku banka leggja til á aðalfundi bankans, sem haldinn verður 26. mars næstkomandi, sérstaka arðgreiðslu til hluthafa. Tillaga þess efnis verður kynnt opinberlega eigi síðar en 5. mars.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, segir söluna mikilvægt skref í stefnu bankans um að skerpa á kjarnastarfsemi sinni og sækja fram á nýja markaði með öflugar vörur og þjónustu.
„Það er ánægjulegt að kaup Landsbankans á TM séu gengin í gegn, en með sölunni erum við að skerpa á okkar kjarnastarfsemi. Markmið okkar er að nýta hluta kaupverðsins til að styrkja stöðu okkar á nýjum mörkuðum. Ég vil þakka stjórnendum og starfsfólki TM kærlega fyrir ánægjulegt og gott samstarf og óska þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ segir Ármann.
Kaup Landsbankans á TM eru ein stærstu viðskiptin á íslenskum tryggingamarkaði síðustu ár og marka þáttaskil í rekstri beggja aðila.

Landsbankinn sendi einnig frá sér tilkynningu vegna viðskiptina en þar segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, að kaupin muni hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans.
„TM er öflugt tryggingafélag með frábæru starfsfólki sem býr yfir mikilli þekkingu á tryggingamarkaði. Við hlökkum til að vinna með starfsfólki TM að því að þróa spennandi nýjungar. Saman búa Landsbankinn og TM yfir öflugu þjónustu- og söluneti, hvort sem er í gegnum reynslumikið starfsfólk, stafrænar lausnir eða í útibúum um allt land. Við sjáum fyrir okkur gott aðgengi viðskiptavina að vörum og þjónustu beggja félaga sem skapar bankanum og TM mörg tækifæri til sóknar. Við teljum auk þess að kaup bankans á TM muni hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans, fjölga tekjustoðum og auka ávinning eigenda bankans til framtíðar. Landsbankinn og TM verða betri saman!“ segir Lilja Björk.
„Við hjá TM erum virkilega spennt að ganga til liðs við Landsbankann. Viðskiptavinir Landsbankans hafa um árabil verið meðal ánægðustu viðskiptavina á íslenskum bankamarkaði og TM hefur á undanförnum misserum stigið afgerandi skref í átt að sama marki á tryggingamarkaði. Ég er sannfærður um að þegar við snúum bökum saman munu TM og Landsbankinn veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi alhliða fjármálaþjónustu, hjálpa þeim að vaxa og dafna og grípa þá þegar áföll verða,“ segir Birkir Jóhannsson, forstjóri TM.