Landsbankinn hagnaðist um 9,0 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi og skilaði því 16,1 milljarðs króna hagnaði eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins. Arðsemi eiginfjár var 10,5% á fyrri árshelmingi. Landsbankinn birti uppgjör um þrjúleytið í dag.
„Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu sex mánuði ársins er sterkt og öll fjárhagsleg markmið sem bankinn hafði sett sér náðust. Arðsemi er í samræmi við markmið og kostnaðarhlutfallið er með því lægsta sem gerist. Vaxtatekjur eru sterkar en vel hefur tekist til við ávöxtun á lausafé bankans,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Rekstrartekjur bankans á fyrri árshelmingi námu 37,4 milljörðum króna og jukust um 8,4% frá sama tímabili í fyrra.
Hreinar vaxtatekjur jukust um 5,8% og námu 29,1 milljarði en hreinar þjónustutekjur dróstu saman um 6,5% frá sama tímabili í fyrra og námu 5,4 milljörðum. Aðrar rekstrartekjur námu 2,9 milljörðum á tímabilinu.
Rekstrargjöld jukust um 4% og námu 14,7 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Kostnaðarhlutfall var 33,1% samanborið við 36,1% á sama tímabili árið 2023.
Eignir Landsbankans voru bókfærðar á 2.075 milljarða króna í lok júní og eigið fé nam 303 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall í lok júní var 24,4% en FME gerir 20,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn.
Kaupin á TM stærsti viðburður tímabilsins
Lilja Björk segir í tilkynningunni að stærsti viðburður síðasta ársfjórðungs hafi verið undirritun á samningi um kaup bankans á TM af Kviku fyrir 28,6 milljarða króna.
„Við leggjum áherslu á að einfalda viðskiptavinum lífið. Árangur okkar birtist í góðu uppgjöri, hagkvæmum rekstri og góðum skilningi á flóknu rekstrarumhverfi sem reglulega er rýnt af eftirlitsaðilum. Við höfum fjölgað tekjustoðum og bjóðum mjög fjölbreytta bankaþjónustu sem flestir viðskiptavinir nýta sér daglega eða oftar.“