Hagnaður Lands­bankans á þriðja árs­fjórðungi nam 10,8 milljörðum króna og hefur því bankinn hagnast um 26,9 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins.

Hreinar vaxta­tekjur bankans voru 44,1 milljarður króna og hreinar þjónustu­tekjur voru 8,1 milljarður króna.

Arð­semi eigin­fjár var 11,7% á fyrstu níu mánuðum ársins saman­borið við 10,5% á sama tíma­bili árið áður.

„Upp­gjörið endur­speglar traustan rekstur og aukin um­svif. Bankinn er í sókn á öllum sviðum og þjónustu­tekjur eru sterkar, enda höfum við lagt á­herslu á að bæta við nýjum þjónustu­þáttum og auka hlut­deild bankans. Sí­felld þróun á Lands­banka­appinu og nýjungar skila sér greini­lega í aukinni notkun, ekki síst á meðal ungs fólks. Þetta á til dæmis við um líf­eyris­sparnað, en samningum um ­líf­eyris­sparnað við ungt fólk hefur verið gert í samningum um líf­eyris­sparnað við ungt fólk fjölgaði um 17,3% eftir að þessum mögu­leika var bætt við í appinu,“ segir Lilja Björk Einars­dóttir, banka­stjóri Lands­bankans.

Vaxta­munur sem hlut­fall af meðal­stöðu heildar­eigna nam 2,9% og vaxta­munur heimila hækkar úr 2% í 2,1% vegna hækkunar á bindi­skyldu.

Virðis­breytingar út­lána voru nei­kvæðar um 2,0 milljarða króna en bankinn segir í upp­gjöri að það megi rekja að stórum hluta til ó­vissu um fjár­hags­legar af­leiðingar náttúru­ham­faranna á Reykja­nes­skaga.

„Undan­farin ár hefur hærra vaxta­stig skilað sér í góðri á­vöxtun lausa­fjár bankans en um leið hefur fjár­mögnun bankans orðið dýrari, sér í lagi vegna hærri vaxta á inn­lánum, sem skilar sér beint til við­skipta­vina í formi betri á­vöxtunar spari­fjár. Sem dæmi má nefna að bestu vextir á inn­lán fyrir­tækja hjá bankanum eru nú 8,64% á ári. Vaxta­munur bankans í heild hefur lækkað frá fyrri fjórðungi og vaxta­munur heimila, sem er munur á ó­bundnum í­búða­lána­vöxtum og vöxtum á ó­bundnum sparnaði, er nú 2,1%“ segir Lilja.

Kostnaðar­hlut­fall Lands­bankans var 32,3% á fyrstu níu mánuðum ársins saman­borið við 34,6% á sama tíma­bili árið 2023.

Eigin­fjár­hlut­fall í lok tíma­bilsins var 24,1% en fjár­mála­eftir­lit Seðla­banka Ís­lands gerir 20,4% heildar­kröfu um eigin­fjár­grunn.

„Kröftugur út­lána­vöxtur á árinu kom okkur að­eins á ó­vart í ljósi hás vaxta­stigs, en vel hefur gengið að fjár­magna þennan vöxt og van­skil eru á­fram lítil. Heildar­út­lán bankans hafa aukist um 155 milljarða króna, sem jafn­gildir um 9,5% vexti. Þar af eru 53,6 milljarðar króna vegna lána til ein­stak­linga og eru það nær allt í­búða­lán. Vegna aukinnar eftir­spurnar eftir verð­tryggðum í­búða­lánum og hærri fjár­mögnunar­kjörum á verð­tryggðum skulda­bréfum, breyttum við fram­boði á verð­tryggðum í­búða­lánum, meðal annars í þeim til­gangi að draga úr eftir­spurn. Við bjóðum á­fram bestu kjörin meðal banka en hættum að veita jafn­greiðslu­lán nema til fyrstu kaup­enda. Mánaðar­legar greiðslur verða hærri en ella hjá þeim sem kjósa verð­tryggð lán en á móti kemur að eigna­myndun verður hraðari. Með þessu móti gátum við haldið vaxta­hækkunum hóf­legum og við teljum að þessi breyting komi sér betur fyrir lang­flesta við­skipta­vini bankans,“ segir Lilja.