Vextir Landsbankans munu hækka frá og með mánudeginum í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í síðustu viku. Frá þessu er greint á vef bankans. Breytilegir óverðtryggðir íbúðalánavextir hækka um hálft prósentustig og verða 8% auk þess sem kjörvextir og yfirdráttarvextir hækka um sömu prósentu. Verðtryggðir vextir verða óbreyttir.
Fastir óverðtryggðir vextir hækka um 0,25-0,3 prósentustig og verða því 8,2-8,25% og 7,95-8% til þriggja og fimm ára miðað við 60-70% veðhlutfall, en ekki kemur fram hvorir vextirnir hækka um hvað.
Bankinn seldi sértryggð skuldabréf í flokknum LBANK CB 27 fyrir 1,9 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 8,03% í gær. Flokkurinn er á lokagjalddaga í september 2027, eftir tæp fimm ár, og myndar grunn að föstum íbúðalánavöxtum til jafn langs tíma þar sem kjör bréfanna eru þau fjármögnunarkjör sem bankinn stendur frammi fyrir á móti slíkum útlánum.
Innlánsvextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka einnig um 0,5 prósentustig og vextir á kjörbók og „almennum sparireikningum“ hækka um 0,25 prósentustig.
Hinir tveir stóru bankarnir tilkynntu einnig um vaxtahækkanir fyrr í dag og hafa þeir því allir brugðist við stýrivaxtahækkun síðustu viku, en allar breytingarnar taka gildi í byrjun næstu viku.