Kostnaðarhlutfall er einn þeirra mælikvarða sem mikið er horft til í bankarekstri, þ.e. hlutfall rekstrarkostnaðar af rekstrartekjum. Landsbankinn hefur á undanförnum tveimur árum verið með langlægsta kostnaðarhlutfallið, 32,40% í fyrra og 33,70% árið á undan.

Til samanburðar var hlutfallið 42,60% hjá Arion banka og 43,90% hjá Íslandsbanka á síðasta ári.

Tekjur Landsbankans voru um þriðjungi meiri á síðasta ári samanborið við tekjur Íslandsbanka og fjórðungi meiri en tekjur Arion banka. Á sama tíma var rekstrarkostnaður svipaður hjá bönkunum þremur.

Þannig námu tekjur bankanna á síðasta ári alls 209 milljörðum króna og hafa einungis einu sinni verið meiri frá fjármálahruni.

Tekjur Íslandsbanka og Arion banka voru á svipuðu reiki í fyrra, líkt og árið áður. Arion banki velti 66,5 milljörðum króna meðan Íslandsbanki velti 62,9 milljörðum króna. Tekjur Landsbankans námu tæplega 80 milljörðum króna og jukust þær um tæp 8% milli ára. Tekjur Íslandsbanka stóðu í stað á milli ára en jukust um 3,5% milli ára hjá Arion banka.

Frá 2009 nema samanlagðar rekstrartekjur bankanna 2.485 milljörðum króna. Hæstar eru samanlagðar tekjur Landsbankans, rúmlega 877 milljarðar króna.

Arion banki kemur næstur með rúmlega 819 milljarða og Íslandsbanki með tæplega 788 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.