Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur samið við Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa til að veita ráðuneytinu ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðum útboðum eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.
Þetta kemur fram í Kauphallartilkynningu en fyrir rúmri viku síðan féllst ráðuneytið á ósk verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance um að verða leyst undan því verkefni að veita ráðuneytinu ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðum útboðum eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.
„Þróun mála í öðrum verkefnum Arctica Finance hefur gert það að verkum að félagið telur sér erfitt um vik að veita áframhaldandi ráðgjöf um útboðin,” sagði í tilkynningu fjármálaráðuneytisins í síðustu viku.
Þann 22. júní 2024 voru samþykkt lög um ráðstöfun eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. Ríkisstjórnin áformar að selja eftirstandandi 42,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka á árunum 2024 og 2025, með markaðssettu hlutafjárútboði.
Lögin fela í sér að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum.
Slíkt sölufyrirkomulag er talið best til þess fallið að fylgja meginreglum sem áhersla er lögð á við ráðstöfun ríkiseigna: gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni.
Í lögunum er m.a. tilgreint með hvaða hætti safnað er í tvær tilboðsbækur í útboði, hvernig verðlagningu verði háttað og úthlutun fari fram. Tilboð einstaklinga verða í forgangi við úthlutun.