Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær keypti fram­taks­sjóðurinn SÍA IV, sjóður í rekstri Stefnis, meiri­hluta hluta­fjár í Inter­neti á Ís­landi hf. (ISNIC).

ISNIC er skráningar­stofa lands­höfuðlénsins.is og sinnir rekstri þess auk þess að reka miðlæga Inter­net­tengi­punktinn RIX. ISNIC hefur skráð.is-lén frá árinu 1988.

Ís­lenska ríkið var með for­kaups­rétt í ISNIC sam­kvæmt lögum um ís­lensk lands­höfuðlén sem Alþingi samþykkti árið 2021.

Sam­kvæmt bráða­birgðaákvæði laganna eignaðist ríkis­sjóður for­kaups­rétt að öllum hlutum í Inter­net á Ís­landi hf. en eig­endur félagsins þurfa að til­kynna ríkis­skatt­stjóra og Póst- og fjar­skipta­stofnun um beint og óbeint eignar­hald í félaginu.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins féll það í skaut Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur, þáverandi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að nýta for­kaups­réttinn eður ei.

Ás­laug Arna ákvað ekki að stíga inn í við­skiptin og koma ISNIC í ríkis­eigu en félagið hefur verið einka­rekið frá árinu 1988.

SÍA IV er nær al­farið í eigu líf­eyris­sjóða en þrír stærstu líf­eyris­sjóðirnir, Gildi, Líf­eyris­sjóður verslunar­manna og líf­eyris­sjóður starfs­manna ríkisins eiga 42,8% hlut.

Tíu stærstu hlut­hafar félagsins eru allt líf­eyris­sjóðir sem fara saman­lagt með um 83% hlut í SÍA IV.

Inter­net á Ís­landi hf. hagnaðist um 151 milljón króna í fyrra, saman­borið við 122 milljóna hagnað árið 2022. Tekjur félagsins námu 444 milljónum í fyrra.

Eignir ISNIC námu 405 milljónum króna og eigið fé var um 108 milljónir króna í árs­lok 2023.

Hluthafar ISNIC voru 21 í árslok 2023. Jens Pétur Jensen er stærsti hluthafi félagsins með 30,3% hlut.

Þar á eftir kemur Íslandspóstur hf. með 19,2% hlut, Magnús Soffaníasson með 17,2% hlut og Bárður Hreinn Tryggvason með 16,7% hlut.