Landsvirkjun hagnaðist um 161,9 milljónir dala eða um, eða 23 milljarða króna, eftir skatta árið 2022 samanborið við 148,6 milljónir dala árið áður og jókst því um 9% á milli ára. Stjórn Landsvirkjunar, sem er í eigu ríkisins, mun leggja til arðgreiðslu að fjárhæð 140 milljónir dala eða tæplega 20 milljarða króna.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar jukust um 25% á milli ára og námu 709 milljónum dala eða um 86,4 milljörðum króna. Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 42,9 dalir á megavattstund, sem er hæsta verð í sögu Landsvirkjunar.

„Afkoma ársins var betri en áður í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem við lítum helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, var 44,9 milljarðar króna og hækkaði um ríflega 72% á milli ára í Bandaríkjadal talið. Rekstrartekjur jukust um rúm 25% frá árinu 2021, þegar þær voru þó meiri en nokkru sinni fyrr,“ segir Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, í afkomutilkynningu.

„Rekstrarniðurstaða ársins 2022 er því einstök í 58 ára sögu fyrirtækisins.“

Hörður rekur árangurinn einkum til skýrra rekstrarmarkmiða og endursamninga við flesta stærstu viðskiptavini á síðustu árum. Þeir borgi nú raforkuverð sem sé sambærilegt við það sem borgað er í samburðarlöndum.

„Rekstrarumhverfi stórnotenda var einnig almennt hagstætt á árinu og óhætt er að segja að velgengni þeirra og Landsvirkjunar haldist að miklu leyti í hendur.“

Landsvirkjun seldi 67,7% eignarhlut í Landsneti til ríkissjóðs fyrir um 43,3 milljarða króna í lok síðasta árs.

Eignir Landsvirkjunar í árslok 2022 námu 3,9 milljörðum dala eða um 560 milljörðum króna á gengi dagsins. Eigið fé var 2,3 milljarðar dala eða 333 milljarðar króna.