Landsnet hagnaðist um 43,1 milljón dala, eða sem nemur tæplega 6 milljörðum króna, og arðsemi eigin fjár var 8,0% árið 2024, samkvæmt uppgjörstilkynningu. Hagnaður félagsins jókst um 68,7% frá fyrra ári þegar félagið hagnaðist um 3,5 milljarða.

Stjórn Landsnets, sem er í 93,2% eigu ríkisins og 6,8% eigu Orkuveitunnar, leggur til að arður að fjárhæð 18 milljónir dala, eða um 2,5 milljarðar króna, verði greiddur til eigenda vegna rekstrarársins 2024.

Tekjur félagsins, sem annast flutning raforku og kerfisstjórnun, jukust um 11,6% milli ára og námu 189 milljónum dala eða um 26 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst um 33,8% og nam 70,5 milljónum dala eða um 9,7 milljörðum króna.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins kemur fram að rekstrartekjur vegna flutnings hafi verið nokkuð undir áætlunum og megi rekja þá niðurstöðu m.a. til skerðinga framleiðenda í sölu á raforku í fyrra. Almennur rekstrarkostnaður hafi verið á áætlun og því rekstrarhagnaður án fjármagnsliða aðeins undir áætlun.

„Það er ánægjulegt að ársreikningurinn sem samþykktur var í dag sýnir að Landsnet er fjárhagslega sterkt, með trygga afkomu og getu til að greiða eigendum sínum arð,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, fráfarandi forstjóri Landsnets.

„Undanfarin ár hafa verið ár mikilla áskorana og var árið 2024 engin undantekning þar á. Þrátt fyrir eldgos, óveður, orkuskerðingar og aðrar áskoranir vegna stöðu heimsmálanna er rekstur félagsins stöðugur og afkoma ársins samkvæmt áætlunum.“

Guðmundur Ingi segir að vegna flutningstakmarkana milli Norður- og Suðurlands gat Landsnet ekki orðið við óskum um orkuflutning milli landshlutanna sem leiddi til aukinna skerðinga á haustmánuðum.

Stefna á að koma Suðurnesjalínu 2 í rekstur á seinni hluta árs

Fjárfestingar Landsnets í fyrra námi 83,1 milljón dala, eða um 11,5 milljörðum króna, sem samsvarar 23,5% aukningu frá fyrra ári. Félagið segir að vel hafi gengið með verkefni þrátt fyrir að áskoranir eru áfram miklar í aðfangakeðjunni bæði hvað varðar verð og aðgengi.

Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hafi farið hægar af stað en gert var ráð fyrir en í lok ársins hafi þær verið komnar vel af stað og gangi vel. Landeigendur þriggja jarða hafa gert kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfisins sem og um ógildingu á heimild til eignarnáms en gert er ráð fyrir að aðalmeðferð þeirra mála fari fram á fyrsta ársfjórðungi 2025.

„Engu að síður standa vonir Landsnets til að hægt verði að koma línunni í rekstur seinni hluta árs 2025. Unnið hefur verið í bætingu leyfisferla en það hefur enn sem komið er ekki skilað sér í hraðari ákvörðunum og því áfram áskoranir því tengdu,“ segir í skýrslu stjórnar.

Eignir Landsnets námu 170,8 milljörðum króna í árslok 2024 og bókfært eigið fé var um 79,5 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins var um 46,5%.