Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, hefur skrifað undir samning við fulltrúa frá Hengtong Submarine Cable um kaup og lagningu á 38,8 km af sæstrengjum. Um er að ræða tvo nýja Vestmannaeyjastrengi og nýjan streng yfir Arnarfjörðinn.

Í tilkynningu segir að lagningarskip komi til landsins sumarið 2025 til að leggja strengina.

Frá Rimakoti verður lagður 3,5 km langur jarðstrengur sem tengist sæstreng um 250 m frá fjöruborðinu í Landeyjarfjöru, þaðan mun 13 km langur sæstrengur verða lagður til Vestmannaeyja og tengjast 1,3 km jarðstreng að tengivirki í Vestmannaeyjum.

Framkvæmdir fela einnig í sér lagningu nýs 66 kV jarðstrengs, 2,4 km frá Bíldudal með fram sunnanverðum Bíldudalsvogi að Haganesi. Nýr 66 kV sæstrengur, 11,8 km, verður þar að auki lagður yfir Arnarfjörð, fyrir Langanes að Hrafnseyri. Að lokum verður svo lagður 66 kV jarðstrengur frá Mjólká og þangað sem sæstrengurinn kemur í land við Hrafnseyri.

Hengtong Group er stærsti framleiðandi ljósleiðara og rafmagnssnúra í Kína og er meðal þriggja stærstu ljósleiðarasamskiptafyrirtækja í heiminum. Markaðshlutdeild fyrirtækisins í Kína er um 25% og er markaðshlutdeild þess á alþjóðlegum markaði 15%.