Í tilkynningu frá Landsnet segir að verið sé að undirbúa nokkrar sviðsmyndir ef til eldgoss kæmi á Reykjanesskaga og ef hraunflæði myndi ógna flutningskerfi rafmagns á svæðinu.

„Ein sviðsmyndin gerir ráð fyrir að hraun muni renna til norðurs og stefna á línuleið Suðurnesjalínu 1. Lína sem liggur sunnan megin við Reykjanesbrautina frá Hafnarfirði og að Fitjum í Reykjanesbæ og er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum í dag.“

Landsnet segir jafnframt að það myndi taka nokkra daga fyrir hraunið að komast að línufarveginum sem gefi þeim tækifæri til að verja möstrin með varnargörðum, styrkja eða færa þau til. Nú þegar er verið að vinna í því að hanna færslur á möstrum og undirbúa efnistök.

„Ef það myndi gerast að Suðurnesjalínan skyldi fara út fyrirvaralaust þá tekur við svokallaður eyjarekstur sem þýðir að virkjanirnar á svæðinu; Reykjanesvirkjun og Svartsengi geta séð svæðinu fyrir forgangsrafmagni. Því til viðbóta er Landsnet tilbúið með færanlegt varaafl sem verður flutt til Suðurnesja komi til þess að línan leysi út.“

Landsnet segist einnig viðbúið að færa varaafl inn á Reykjanesskagann með stuttum fyrirvara ef til rafmagnsleysis kæmi.