Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Landspítalann til að greiða Kerecis 36,5 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum vegna samnings þeirra á milli um viðbragðslager með brunaroð frá árinu 2021.
Landspítalinn taldi sig ekki þurfa að greiða fyrir brunaroðið og bar fyrir sig að samningur hefði ekki komist á milli spítalans og Kerecis.
Í dómi Héraðsdóms kemur þó fram að það hafi verið óumdeilt á samskiptum Guðmundar Fertram, forstjóra og stofnanda Kerecis, og Páls Matthíassonar, fyrrverandi forstjóra Landspítalans, að dæma að bindandi samningur hefði komist á.
Samkvæmt dómi héraðsdóms hófst málið með tölvupóstsamskiptum Guðmundar Fertram og Páls en þann 27. mars 2021 sendi Guðmundur Páli tölvupóst vegna mögulegrar hættu á hópbrunaslysi í tengslum við jarðelda hérlendis og hvernig birgðir spítalans væru.
Páll svaraði Guðmundi tveimur dögum síðar þar sem spurðist fyrir um möguleikann á að panta brunaroð Kerecis.
„Hvað varðar birgðir á Landspítala þá munum við kanna stöðuna á þeim nú fyrir páska. Hvað varðar brunaroðið frá Kerecis þá væri gott að vita hvort Landspítali geti pantað slíkt, hversu lengi er verið að framleiða þau og hver er endingartími brunaroðanna?“ segir í tölvupósti Páls sem er hluti af málsgögnum.
Guðmundur bendir Páli á að það sé hægt að panta gegnum rammasamning Kerecis.
„Við getum flutt vörur frá Ísafirði og Bandaríkjunum til Reykjavíkur og haft tiltækar í Reykjavík fyrir fimm sjúklinga á fimmtudag, innan mánaðar fyrir 25 sjúklinga og innan tveggja mánaða fyrir 50 sjúklinga. Allt miðað við 60% bruna. Við getum einnig boðið þjálfun og aðstoð ef upp kemur hópbrunaslys,“ skrifar Guðmundur.
Í lengra máli fer hann yfir kostnað og fleira en þar kemur meðal annars fram að upphafsgreiðsla yrði um 36,4 milljónir.
Hafa ber í huga að á þessum tíma var Kerecis enn vaxtarfyrirtæki sem er að stækka gegnum hlutafjáraukningar til að mæta kostnaði en félagið tapaði 500 þúsund Bandaríkjadölum á fjárhagsárinu 2021.
Páll svarar Guðmundi næsta dag og segir: „Þakka þér, við þiggjum þetta góða boð fyrir fimm manns næsta fimmtudag (ef ekki orðið of seint, annars við næsta tækifæri).“
Guðmundur Fertram svarar Páli samdægurs og segir Kerecis setja „það strax í gang“ sem Páll þakkar kærlega fyrir.
Rúmum mánuði síðar, 7. maí 2021, sendir framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landspítalans Guðmundi Fertram póst þar sem Landspítalinn vill endurskoða fyrri ákvörðun og setja möguleg kaup á fiskroði í hefðbundið ferli í gegnum innkaupadeild Landspítalans og að deildarstjóri innkaupadeildar Landspítalans muni taka málið áfram.
Guðmundur Fertram svarar LSH samdægurs þar sem hann segir samningsdrög tilbúin en um sé að ræða staðlaðan samning fyrir viðbragðslager af þessu tagi sem sjúkrahús og viðbragðsaðilar víðs vegar um heiminn hafi gert við Kerecis.
„Varan hefur verið til reiðu í Reykjavík frá 31. mars og Landspítali hefur verið með símanúmer sem hringja má í 24/7 til að fá vöru afhenda og aðstoð við notkun frá þeim tíma. Viðbragðslagerinn samanstendur núna af blandi af stórum og litlum stærðum og erum við að byggja hann upp í stórum stærðum og minnka minni stærðir, þar sem stærri möskvaðar stærðir eru betri í notkun á stórum brunasárum. Lagerinn er geymdur á sérstökum stað, merktum sem viðbragðslager Landspítala, aðskilinn frá öðrum vörum (lager okkar er annars á Ísafirði). Viðbragðslagerinn má hafa þar sem þið kallið eftir að hann sé og mun starfsmaður frá okkur sjá um að framleitt/fyllt sé á hann og hann ekki með neinum útrunnum vörum,“ segir í pósti Guðmundar Fertram.
Deildarstjóri innkaupadeildar óskar síðan eftir reikningi frá Kerecis fyrir mun minni upphæð en upphaflega var samið um í tölvupóstsamskiptum Páls og Guðmundar.
Deildarstjórinn segir jafnframt að spítalinn muni þurfa í framhaldinu með fagfólki sínu að greina þarfir spítalans og vera í sambandi við hann um að gera mögulegan nýjan samning.
„Við erum búin að fara betur yfir málið og teljum að reikningurinn hafi verið gefinn út í samræmi við samþykkt tilboð af hálfu Landspítala sem gert var í tölvupósti 30. mars [...]. Enda hafa Kerecis og Landspítali verið samstíga í sérhverju skrefi í þessu máli og Kerecis m.a. haft vöruna til reiðu í viðbragðslagernum með tilheyrandi kostnaði. Af þeim sökum teljum við ekki þörf á að senda kredit-reikning og lítum svo á að um bindandi samkomulag sé að ræða,“ segir í svari Guðmundar við tölvupósti deildarstjórans.
Við niðurstöðu héraðsdóms var rammasamningurinn skoðaður sem og öll tölvupóstsamskipti en ásamt því báru Páll, Guðmundur Fertram og Kristján Þór Valdimarsson, deildarstjóri innkaupadeildar LSH, vitni fyrir dómi.
Niðurstaða héraðsdóms er afdráttarlaus og segir að gildur samningur hafi komist á í lok mars.
„Svar stefnda [LSH] 31. mars 2021, þar sem boðið var þegið, er mjög afdráttarlaust og sett fram án nokkurs fyrirvara. Verður það að mati dómsins ekki skilið á annan veg en þann að stefndi hafi með því þegið boð stefnanda um að næsta fimmtudag yrði tiltækur í Reykjavík brunaroð óviðbragðslager fyrir stefnda til að bregðast við brunasárum,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Sem fyrr segir var Landspítalanum gert að greiða 36,5 milljónir ásamt dráttarvöxtum líkt og samkomulag kvað á um.