Héraðs­dómur Reykja­víkur dæmdi í gær Land­spítalann til að greiða Kerecis 36,5 milljónir króna á­samt dráttar­vöxtum vegna samnings þeirra á milli um við­bragðs­la­ger með brunaroð frá árinu 2021.

Land­spítalinn taldi sig ekki þurfa að greiða fyrir brunaroðið og bar fyrir sig að samningur hefði ekki komist á milli spítalans og Kerecis.

Í dómi Héraðs­dóms kemur þó fram að það hafi verið ó­um­deilt á sam­skiptum Guð­mundar Fer­tram, for­stjóra og stofnanda Kerecis, og Páls Matthías­sonar, fyrr­verandi for­stjóra Land­spítalans, að dæma að bindandi samningur hefði komist á.

Sam­kvæmt dómi héraðs­dóms hófst málið með tölvu­póst­sam­skiptum Guð­mundar Fer­tram og Páls en þann 27. mars 2021 sendi Guð­mundur Páli tölvu­póst vegna mögu­legrar hættu á hóp­bruna­slysi í tengslum við jarð­elda hér­lendis og hvernig birgðir spítalans væru.

Páll svaraði Guð­mundi tveimur dögum síðar þar sem spurðist fyrir um mögu­leikann á að panta brunaroð Kerecis.

„Hvað varðar birgðir á Land­spítala þá munum við kanna stöðuna á þeim nú fyrir páska. Hvað varðar brunaroðið frá Kerecis þá væri gott að vita hvort Land­spítali geti pantað slíkt, hversu lengi er verið að fram­leiða þau og hver er endingar­tími brunaroðanna?“ segir í tölvu­pósti Páls sem er hluti af máls­gögnum.

Guð­mundur bendir Páli á að það sé hægt að panta gegnum ramma­samning Kerecis.

„Við getum flutt vörur frá Ísa­firði og Banda­ríkjunum til Reykja­víkur og haft til­tækar í Reykja­vík fyrir fimm sjúk­linga á fimmtu­dag, innan mánaðar fyrir 25 sjúk­linga og innan tveggja mánaða fyrir 50 sjúk­linga. Allt miðað við 60% bruna. Við getum einnig boðið þjálfun og að­stoð ef upp kemur hóp­bruna­slys,“ skrifar Guð­mundur.

Í lengra máli fer hann yfir kostnað og fleira en þar kemur meðal annars fram að upp­hafs­greiðsla yrði um 36,4 milljónir.

Hafa ber í huga að á þessum tíma var Kerecis enn vaxtar­fyrir­tæki sem er að stækka gegnum hluta­fjár­aukningar til að mæta kostnaði en fé­lagið tapaði 500 þúsund Banda­ríkja­dölum á fjár­hags­árinu 2021.

Páll svarar Guð­mundi næsta dag og segir: „Þakka þér, við þiggjum þetta góða boð fyrir fimm manns næsta fimmtu­dag (ef ekki orðið of seint, annars við næsta tæki­færi).“
Guð­mundur Fer­tram svarar Páli sam­dægurs og segir Kerecis setja „það strax í gang“ sem Páll þakkar kær­lega fyrir.

Rúmum mánuði síðar, 7. maí 2021, sendir fram­kvæmda­stjóri að­gerðar­sviðs Land­spítalans Guð­mundi Fer­tram póst þar sem Land­spítalinn vill endur­skoða fyrri á­kvörðun og setja mögu­leg kaup á fisk­roði í hefð­bundið ferli í gegnum inn­kaupa­deild Land­spítalans og að deildar­stjóri inn­kaupa­deildar Land­spítalans muni taka málið á­fram.

Guð­mundur Fer­tram svarar LSH sam­dægurs þar sem hann segir samnings­drög til­búin en um sé að ræða staðlaðan samning fyrir við­bragðs­la­ger af þessu tagi sem sjúkra­hús og við­bragðs­aðilar víðs vegar um heiminn hafi gert við Kerecis.

„Varan hefur verið til reiðu í Reykja­vík frá 31. mars og Land­spítali hefur verið með síma­númer sem hringja má í 24/7 til að fá vöru af­henda og að­stoð við notkun frá þeim tíma. Við­bragðs­la­gerinn saman­stendur núna af blandi af stórum og litlum stærðum og erum við að byggja hann upp í stórum stærðum og minnka minni stærðir, þar sem stærri möskvaðar stærðir eru betri í notkun á stórum bruna­sárum. Lagerinn er geymdur á sér­stökum stað, merktum sem við­bragðs­la­ger Land­spítala, að­skilinn frá öðrum vörum (lager okkar er annars á Ísa­firði). Við­bragðs­la­gerinn má hafa þar sem þið kallið eftir að hann sé og mun starfs­maður frá okkur sjá um að fram­leitt/fyllt sé á hann og hann ekki með neinum út­runnum vörum,“ segir í pósti Guð­mundar Fer­tram.

Deildar­stjóri inn­kaupa­deildar óskar síðan eftir reikningi frá Kerecis fyrir mun minni upp­hæð en upp­haf­lega var samið um í tölvu­póst­sam­skiptum Páls og Guð­mundar.

Deildarstjórinn segir jafnframt að spítalinn muni þurfa í fram­haldinu með fag­fólki sínu að greina þarfir spítalans og vera í sam­bandi við hann um að gera mögu­legan nýjan samning.

„Við erum búin að fara betur yfir málið og teljum að reikningurinn hafi verið gefinn út í sam­ræmi við sam­þykkt til­boð af hálfu Land­spítala sem gert var í tölvu­pósti 30. mars [...]. Enda hafa Kerecis og Land­spítali verið sam­stíga í sér­hverju skrefi í þessu máli og Kerecis m.a. haft vöruna til reiðu í við­bragðs­la­gernum með til­heyrandi kostnaði. Af þeim sökum teljum við ekki þörf á að senda kredit-reikning og lítum svo á að um bindandi sam­komu­lag sé að ræða,“ segir í svari Guð­mundar við tölvupósti deildarstjórans.

Við niður­stöðu héraðs­dóms var ramma­samningurinn skoðaður sem og öll tölvu­póst­sam­skipti en á­samt því báru Páll, Guð­mundur Fer­tram og Kristján Þór Valdimars­son, deildar­stjóri inn­kaupa­deildar LSH, vitni fyrir dómi.

Niður­staða héraðs­dóms er af­dráttar­laus og segir að gildur samningur hafi komist á í lok mars.
„Svar stefnda [LSH] 31. mars 2021, þar sem boðið var þegið, er mjög af­dráttar­laust og sett fram án nokkurs fyrir­vara. Verður það að mati dómsins ekki skilið á annan veg en þann að stefndi hafi með því þegið boð stefnanda um að næsta fimmtu­dag yrði til­tækur í Reykja­vík brunaroð ó­við­bragðs­la­ger fyrir stefnda til að bregðast við bruna­sárum,“ segir í niður­stöðu héraðs­dóms.

Sem fyrr segir var Land­spítalanum gert að greiða 36,5 milljónir á­samt dráttar­vöxtum líkt og sam­komu­lag kvað á um.