Landspítalinn hefur valið CCQ gæðastjórnunarkerfi frá Origo eftir útboðsferli sem Ríkiskaup stýrðu en samningur milli Landspítala og Origo var undirritaður á dögunum. 

Í tilkynningu segir að nýja CCQ gæðastjórnunarkerfi mun koma til með að leysa eldri gæðakerfi Landspítalans af hólmi en Origo sérhæfir sig í rekstri stjórnkerfa.

„Við hlökkum til að vinna með Landspítalanum að innleiðingu og rekstri á CCQ því við erum sannfærð um að það mun vera bylting í rekstri gæðastjórnunarkerfis Landspítalans. Ég vona að sjúklingar og starfsfólk muni finna mun þegar nútímalegt gæðastjórnunarkerfi heldur utan um gæðaskjöl, verkferla og vinnulýsingar spítalans,“ segir Kristín Hrefna Halldórsdóttir, forstöðumaður gæða- og innkaupalausna Origo.

CCQ er heildstæð gæðastjórnunarlausn sem notuð er til að meðhöndla þætti sem snúa að bættum verkferlum og vinnulýsingu. CCQ er sjálfvirkt upplýsingaflæði og minnir ábyrgðaraðila meðal annars á verkefni hvort sem skjal þarf samþykki, endurskoðun eða endurútgáfu.

„Það verður spennandi verkefni að leiða innleiðingu á nýju gæðakerfi innan Landspítala en með nýju kerfi CCQ verða gæðahandbækur Landspítala sameinaðar í eina heilsteypta gæðahandbók,“ segir Gunnhildur Ingólfsdóttir, gæðastjóri klínískrar rannsóknar- og stoðþjónustu Landspítala.