Lands­réttur hefur hafnað beiðni Fjélagsins – eignar­halds­félags hf., sem á Gamla bíó við Ingólfs­stræti, um að fá dóm­kvaddan nýjan mats­mann til að leggja mat á hljóðvist og hljóðein­angrun milli Gamla bíós og 101 Hótels við Hverfis­götu.

Hótelið er rekið af IP Stu­dium Reykja­vík ehf., félagi í eigu Ingi­bjargar Pálma­dóttur.

Fjélagið er aftur á móti að 99% í eigu breska fjár­festisins Jason Whitt­le, sem fer með eignar­hald í gegnum kín­verska félagið Top Gain International Ltd.

Whitt­le er sjálf­stæður fjár­festir en hann og fjöl­skylda hans hafa um ára­bil verið um­svifa­mikil í orku­geiranum í Asíu, hóteliðnaði og endur­vinnslu.

Hann hefur verið umsvifamikill fjárfestir á Íslandi alveg frá hruni og átti um tíma helmings­hlut í Stormi Sea­food áður en Skinn­ey – Þinga­nes keypti allar afla­heimildir félagsins árið 2018.

Þá á Whitt­le einnig í hlut Sam­einaða út­gáfu­félaginu, sem gefur út Heimildina og Vís­bendingu.

Sjö ára máls­með­ferð og frekari töf óásættan­leg

Deilur málsaðila snúast að megin­hluta um hvort ónæði frá viðburðum í Gamla bíó hafi áhrif á nætur­frið hótel­gesta á 101 Hóteli, og hvort IP Stu­dium hafi fullnægt kröfum um hljóðein­angrun þegar húsnæðinu var breytt úr skrif­stofum í hótel árið 2003.

Málið hefur verið fyrir dómstólum frá árinu 2017 og þegar liggja fyrir bæði undir- og yfir­mats­gerðir, auk fjölda sér­fræðiskýrslna.

Í úr­skurði Lands­réttar segir að Fjélagið hafi haft nægan tíma til að afla allra gagna og mats­gerða áður en yfir­mats­gerð var lögð fram í desember 2024.

Með því að óska eftir nýrri mats­gerð nú væri verið að bjóða upp á „fyrir­sjáan­legar tafir á með­ferð málsins“ sem væru úr hófi fram, í and­stöðu við megin­reglu um hraða máls­með­ferð sam­kvæmt 70. gr. stjórnar­skrárinnar.

Ágreiningur um friðað húsnæði

Fjélagið krefst þess að viðbygging við 101 Hótel verði fjar­lægð og að IP Stu­dium verði gert að bæta hljóðein­angrun milli húsanna.

Til vara er krafist þess að Reykja­víkur­borg verði gerð skaða­bótaábyrg fyrir að hafa veitt byggingar­leyfi án þess að tryggt væri að hljóðvist samræmdist reglum.

Í undir- og yfir­mats­gerðum eru mats­menn ósammála um hvort gera hafi átt kröfu um 75 dB hljóðein­angrun milli húsanna, en yfir­mats­menn telja að gildandi reglu­gerð hafi verið upp­fyllt árið 2003.

Fjélagið vildi með nýrri mats­beiðni fá lagt mat á hljóð­styrk frá ýmsum tegundum viðburða, þar á meðal óperu og raf­mögnuðum tón­leikum.

Lands­réttur hafnaði þeirri beiðni og tók fram að hún hefði átt að koma fyrr fram og að fullnægjandi gögn væru nú þegar til staðar.

Með úr­skurði sínum felldi Lands­réttur úr­skurð Héraðs­dóms Reykja­víkur úr gildi sem hafði áður veitt Fjélaginu heimild til að fá dóm­kvaddan nýjan mats­mann.

Fjélaginu var jafn­framt gert að greiða bæði IP Stu­dium Reykja­vík ehf. og Reykja­víkur­borg 600.000 krónur hvorum í máls­kostnað.