Landsréttur hefur hafnað beiðni Fjélagsins – eignarhaldsfélags hf., sem á Gamla bíó við Ingólfsstræti, um að fá dómkvaddan nýjan matsmann til að leggja mat á hljóðvist og hljóðeinangrun milli Gamla bíós og 101 Hótels við Hverfisgötu.
Hótelið er rekið af IP Studium Reykjavík ehf., félagi í eigu Ingibjargar Pálmadóttur.
Fjélagið er aftur á móti að 99% í eigu breska fjárfestisins Jason Whittle, sem fer með eignarhald í gegnum kínverska félagið Top Gain International Ltd.
Whittle er sjálfstæður fjárfestir en hann og fjölskylda hans hafa um árabil verið umsvifamikil í orkugeiranum í Asíu, hóteliðnaði og endurvinnslu.
Hann hefur verið umsvifamikill fjárfestir á Íslandi alveg frá hruni og átti um tíma helmingshlut í Stormi Seafood áður en Skinney – Þinganes keypti allar aflaheimildir félagsins árið 2018.
Þá á Whittle einnig í hlut Sameinaða útgáfufélaginu, sem gefur út Heimildina og Vísbendingu.
Sjö ára málsmeðferð og frekari töf óásættanleg
Deilur málsaðila snúast að meginhluta um hvort ónæði frá viðburðum í Gamla bíó hafi áhrif á næturfrið hótelgesta á 101 Hóteli, og hvort IP Studium hafi fullnægt kröfum um hljóðeinangrun þegar húsnæðinu var breytt úr skrifstofum í hótel árið 2003.
Málið hefur verið fyrir dómstólum frá árinu 2017 og þegar liggja fyrir bæði undir- og yfirmatsgerðir, auk fjölda sérfræðiskýrslna.
Í úrskurði Landsréttar segir að Fjélagið hafi haft nægan tíma til að afla allra gagna og matsgerða áður en yfirmatsgerð var lögð fram í desember 2024.
Með því að óska eftir nýrri matsgerð nú væri verið að bjóða upp á „fyrirsjáanlegar tafir á meðferð málsins“ sem væru úr hófi fram, í andstöðu við meginreglu um hraða málsmeðferð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar.
Ágreiningur um friðað húsnæði
Fjélagið krefst þess að viðbygging við 101 Hótel verði fjarlægð og að IP Studium verði gert að bæta hljóðeinangrun milli húsanna.
Til vara er krafist þess að Reykjavíkurborg verði gerð skaðabótaábyrg fyrir að hafa veitt byggingarleyfi án þess að tryggt væri að hljóðvist samræmdist reglum.
Í undir- og yfirmatsgerðum eru matsmenn ósammála um hvort gera hafi átt kröfu um 75 dB hljóðeinangrun milli húsanna, en yfirmatsmenn telja að gildandi reglugerð hafi verið uppfyllt árið 2003.
Fjélagið vildi með nýrri matsbeiðni fá lagt mat á hljóðstyrk frá ýmsum tegundum viðburða, þar á meðal óperu og rafmögnuðum tónleikum.
Landsréttur hafnaði þeirri beiðni og tók fram að hún hefði átt að koma fyrr fram og að fullnægjandi gögn væru nú þegar til staðar.
Með úrskurði sínum felldi Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur úr gildi sem hafði áður veitt Fjélaginu heimild til að fá dómkvaddan nýjan matsmann.
Fjélaginu var jafnframt gert að greiða bæði IP Studium Reykjavík ehf. og Reykjavíkurborg 600.000 krónur hvorum í málskostnað.