Landsréttur hefur staðfest frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á viðurkenningarmáli Samskipa gegn Eimskipafélagi Íslands og forstjóra þess, Vilhelmi Má Þorsteinssyni.
Málið laut að kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu án tilgreindrar fjárhæðar vegna meintra ólögmætra og saknæmra athafna í tengslum við sátt sem Eimskip gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2021.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar í dag segir að Landsréttur hafi staðfest frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur.
Héraðsdómur taldi ótímabært að taka fyrir stefnu Samskipa gegn forsvarsmönnum Eimskipa.
Samskip stefndi forsvarsmönnum Eimskips m.a. fyrir rangar sakagiftir er þeir gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2021 og viðurkenndu að hafa átt í meintu samráði við Samskip.
Eimskip greiddi 1,5 milljarða króna stjórnvaldssekt en Samkeppniseftirlitið sektaði Samskip um 4,2 milljarða í kjölfarið sem er hæsta stjórnvaldssekt Íslandssögunnar.
Í lok mars féllst Áfrýjunarnefnd samkeppnismála að hluta til á rök Samskipa og lækkaði sektarfjárhæðina verulega.
Sektarákvörðun Samkeppniseftirlitsins var lækkuð úr 4,2 milljörðum í 2,4 milljarða króna og ályktunum eftirlitsins hafnað að hluta.