Landsréttur hefur staðfest sýknudóm í máli Lyfjablóms ehf. á hendur Þórðar Más Jóhannessonar fjárfestis og Sólveigar Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Lesa má dóm Landsréttar hér.
Lyfjablóm var dæmt til að greiða Þórði Má og Sólveigu hvoru um sig 2,5 milljónir króna í málskostnaði fyrir Landsrétti.
Stefnan gegn Þórði Má byggði á því að hann hefði í störfum sínum sem forstjóri Gnúps brotið gegn hluthöfum félagsins. Krafan á hendur Sólveigu sneri að því að hún situr í óskiptu dánarbúi Kristins Björnssonar, eiginmanns hennar, sem var í forsvari fyrir fjárfestingar sínar og þriggja systra sinna. Saman áttu þau félagið Björn Hallgrímsson ehf., eigenda Gnúps. Nafni félagsins var síðar breytt í Lyfjablóm.
„Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var staðfest niðurstaða hans um að gögn málsins styddu ekki þá fullyrðingu að [Þórður Már] og [Kristinn] hefðu blekkt [Lyfjablóm] í umþrættum lögskiptum og þar með valdið [Lyfjablómi] tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti svo bótaskyldu varðaði. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur,“ segir í reifun dómsins.