Lands­réttur stað­festi í dag sýknu­dóm yfir ís­lenska ríkinu og Linda­hvoli vegna sölu á hlut ríkisins í Klakka ehf. árið 2016.

Frigus II, sem er í eigu Sigurðar Valtýs­sonar, og Ágústs og Lýðs Guð­munds­sonar, kenndir við Bakka­vör, stefndi Lindar­hvoli og ríkinu í septem­ber árið 2020 og fór fram á 651 milljón króna í bætur.

Fé­lagið taldi m.a. til­boði hafa verið tekið sem ekki upp­fyllti skil­yrði út­boðsins og að til­boðinu hefði verið breytt eftir á.

Frigus taldi að stjórn Lindar­hvols hefði hvorki gætt að jafn­ræði né gagn­sæi í sölu­ferlinu á Klakka.

Lindar­hvoli hafi borist þrjú til­boð í eignina – frá BLM fjár­festingum, Ása­flöt og Kviku, sem bauð fyrir hönd Frigusar.

Lindar­hvoll hafi á­kveðið að taka til­boði BLM fjár­festinga sem hljóðaði upp á 505 milljónir króna.

En að mati Frigusar hafi ekki allir bjóð­endur setið við sama borð enda hafi eini stjórnar­maður BLM fjár­festinga jafn­framt verið for­stjóri Klakka og eini stjórnar­maður Ása­flatar verið fjár­mála­stjóri Klakka.

Meðal þeirra sem báru vitni við aðal­með­ferð málsins í héraði voru Sigurður Þórðar­son settur ríkis­endur­skoðandi í mál­efnum Lindar­hvols.

Sigurður ritaði greinar­gerð um starf­semi Lindar­hvols sem var ekki gerð opin­ber fyrr en í fyrra.

Í greinar­gerð Sigurðar var að finna við­bótar­upp­lýsingar um málið en í henni er því haldið fram að gögn „gefi sterk­lega til kynna“ að sam­komu­lag um sölu á eignar­hluta ríkis­sjóðs í Klakka hafi verið komið á í upp­hafi árs 2016.

Mun það vera mánuðum áður en hlutirnir voru aug­lýstir til sölu og jafn­vel áður en fé­lagið Lindar­hvoll ehf., var stofnað um miðjan apríl 2016, til að annast um­sýslu, fullnustu og sölu, eftir því sem við á, á eignum ríkis­sjóðs.

Í greinar­gerðinni kom einnig fram að ríkið hafi orðið af um 1,7 milljörðum króna þegar það seldi eignar­hluti sinni í Klakka.

Klakki ehf. var stofnaður árið 2011 til að sinna því ein­vörðungu að stýra eigna­safni Ex­ista hf. til greiðslu á kröfum kröfu­hafa á hendur fé­laginu.

Í árs­reikningi BLM fjár­festinga ehf. fyrir árið 2016 kemur fram í skýrslu stjórnar að fé­lagið sé að fullu í eigu Bur­lington Loan Mana­gement DAC.