Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm yfir íslenska ríkinu og Lindahvoli vegna sölu á hlut ríkisins í Klakka ehf. árið 2016.
Frigus II, sem er í eigu Sigurðar Valtýssonar, og Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, kenndir við Bakkavör, stefndi Lindarhvoli og ríkinu í september árið 2020 og fór fram á 651 milljón króna í bætur.
Félagið taldi m.a. tilboði hafa verið tekið sem ekki uppfyllti skilyrði útboðsins og að tilboðinu hefði verið breytt eftir á.
Frigus taldi að stjórn Lindarhvols hefði hvorki gætt að jafnræði né gagnsæi í söluferlinu á Klakka.
Lindarhvoli hafi borist þrjú tilboð í eignina – frá BLM fjárfestingum, Ásaflöt og Kviku, sem bauð fyrir hönd Frigusar.
Lindarhvoll hafi ákveðið að taka tilboði BLM fjárfestinga sem hljóðaði upp á 505 milljónir króna.
En að mati Frigusar hafi ekki allir bjóðendur setið við sama borð enda hafi eini stjórnarmaður BLM fjárfestinga jafnframt verið forstjóri Klakka og eini stjórnarmaður Ásaflatar verið fjármálastjóri Klakka.
Meðal þeirra sem báru vitni við aðalmeðferð málsins í héraði voru Sigurður Þórðarson settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols.
Sigurður ritaði greinargerð um starfsemi Lindarhvols sem var ekki gerð opinber fyrr en í fyrra.
Í greinargerð Sigurðar var að finna viðbótarupplýsingar um málið en í henni er því haldið fram að gögn „gefi sterklega til kynna“ að samkomulag um sölu á eignarhluta ríkissjóðs í Klakka hafi verið komið á í upphafi árs 2016.
Mun það vera mánuðum áður en hlutirnir voru auglýstir til sölu og jafnvel áður en félagið Lindarhvoll ehf., var stofnað um miðjan apríl 2016, til að annast umsýslu, fullnustu og sölu, eftir því sem við á, á eignum ríkissjóðs.
Í greinargerðinni kom einnig fram að ríkið hafi orðið af um 1,7 milljörðum króna þegar það seldi eignarhluti sinni í Klakka.
Klakki ehf. var stofnaður árið 2011 til að sinna því einvörðungu að stýra eignasafni Exista hf. til greiðslu á kröfum kröfuhafa á hendur félaginu.
Í ársreikningi BLM fjárfestinga ehf. fyrir árið 2016 kemur fram í skýrslu stjórnar að félagið sé að fullu í eigu Burlington Loan Management DAC.