Áætluð heildarupphæð í fyrirhuguðum útboðum verklegra framkvæmda þeirra tíu opinberu aðila sem taka þátt á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) 2024 nemur á þessu ári samtals 204 milljörðum króna. Í nýrri greiningu SI kemur fram að umfangsmestu útboð þessa árs boða Landsvirkjun, Vegagerðin og Nýr Landspítali (NLSH).

Áætluð heildarupphæð í fyrirhuguðum útboðum verklegra framkvæmda þeirra tíu opinberu aðila sem taka þátt á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) 2024 nemur á þessu ári samtals 204 milljörðum króna. Í nýrri greiningu SI kemur fram að umfangsmestu útboð þessa árs boða Landsvirkjun, Vegagerðin og Nýr Landspítali (NLSH).

Landsvirkjun fyrirhugar útboð fyrir 100 milljarða króna á þessu ári en á síðasta ári námu raunútboð Landsvirkjunar aðeins um 500 milljónum króna. Útboð sem boðuð voru af Landsvirkjun á síðasta ári að fjárhæð 46 milljarða króna gengu ekki eftir vegna tafa á leyfisveitingum framkvæmda.

Landsvirkjun áætlar þar af leiðandi að þau verkefni verði boðin út á þessu ári til viðbótar við önnur ný verkefni sem stefnt er að bjóða út á árinu, að því er segir í greiningunni.

Mynd tekin úr greiningu SI.

N‎ýi Landspítalinn býður út fyrir 21,5 milljarða

NLSH ofh., sem hefur umsjón með og stýringu á Nýjum Landspítala fyrir hönd ríkisins, stefnir að bjóða út verkefni fyrir um 21,5 milljarða króna á árinu. Það er talsverð aukning frá því sem boðað var á síðasta ári þegar áætlanir gerðu ráð fyrir að verkefni fyrir um 16 milljarða króna yrðu boðin út.

Helstu verkefni til útboðs á vegum NLSH eru þakfrágangur og innri frágangur meðferðarkjarna, uppsteypa og utanhússfrágangur á húsi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands auk gatna-, veitna- og lóðagerðar við Hringbraut.

Þá stefnir NLSH á að bjóða út tvö verkefni utan Hringbrautarverkefnisins, þ.e. framkvæmdaútboð vegna nýbyggingar Grensáss og fullnaðarhönnunarverkefni vegna Sjúkrahúss Akureyrar.

Vegaútgerðin áformar minni útboð í ár

Vegagerðin áformar útboð fyrir um 25 milljarða króna á árinu, eða næst mest af opinberum verkkaupum. Það er lækkun frá fyrirhuguðum útboðum á síðastliðnu ári en þá stefndi stofnunin á að bjóða út verkefni fyrir um 35 milljarða króna en útboð fyrir 30 milljarða króna raungerðust á árinu.

Á höfuðborgarsvæðinu áformar Vegagerðin að bjóða út vinnu við Fossvogsbrú á þessu ári í gegnum Samgöngusáttmálann auk annars áfanga við Kjalarnes, útboðsverkefni sem metin eru á rétt tæplega 11 milljarða króna.

Umfangsmestu útboð stofnunarinnar utan höfuðborgarsvæðisins verða á Vesturlandi þar sem stefnt er að því að bjóða út 6 verkefni að heildarfjárhæð rúmlega 7,5 milljarð króna.

Umfangsmeiri útboð hjá Landsneti

Landsnet boðar umfangsmeiri útboð á árinu eða 17,3 milljarða króna samanborið við áætlun síðasta árs upp á 13,4 milljarða króna. Í greiningu SI kemur fram að útboð að fjárhæð 9,5 milljarða af þeim 13,4 milljörðum króna sem boðaðar höfðu verið hjá stofnuninni raungerðust á árinu.

Landsnet hyggst m.a. bjóða út ný tengivirki, breytingar á loftlínum og lagningu jarðstrengja.